Erlent

Forstjóri Uber hættir í ráðgjafaráði Trump

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Travis Kalanick.
Travis Kalanick. Vísir/EPA
Travis Kalanick, forstjóri leigubílaþjónustunnar Uber, hefur ákveðið að hætta störfum sínum í ráðgjafaráði Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Kalanick hefur sætt mikilli gagnrýni frá bæði starfsfólki sínu og almenningi fyrir að aðstoða forsetann.

Í minnisblaði sem Kalanick sendi starfsfólki sínu í dag segir Kalanick að með þáttöku sinni í ráðinu hafi hann ekki ætlað að lýsa yfir stuðningi við forsetann eða stefnu hans, en að því miður hafi fólk litið svo á.

„Ég ræddi við forsetann fyrr í dag um innflytjenda tilskipun hans og áhrif hennar á samfélagið okkar,“ sagði Kalanick.

Kalanick hefur sætt harðri gagnrýni fyrir þáttöku í ráðinu og á dögunu fór af stað herferðin #DeleteUber þar sem fólk var hvatt til að eyða smáforritinu úr símum sínum og hætta viðskiptum við fyrirtækið.

Reiði almennings vaknaði fyrst þegar Uber var talið reyna að brjóta klukkutíma langt verkfall leigubílstjóra við JFK flugvöll í New York þar sem innflytjendatilskipun Trump var mótmælt. Fólk taldi að Uber tæki ekki þátt í aðgerðunum vegna þátttöku Kalanick í ráðgjafaráðinu.

Fjölmargar stjörnur hafa tekið þátt í aðgerðum gegn Uber, þar á meðal Lena Dunham, Susan Sarandon og George Takei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×