Innlent

Forstjóri Landsvirkjunar gagnrýnir tímaþröng við rammaáætlun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að athugasemdum Landsvirkjunar við tillögur verkefnisstjórnar um þriðja áfanga rammaáætlunar hafi ekki verið svarað.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að athugasemdum Landsvirkjunar við tillögur verkefnisstjórnar um þriðja áfanga rammaáætlunar hafi ekki verið svarað. Vísir/Ernir
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að athugasemdum Landsvirkjunar við tillögur verkefnisstjórnar um þriðja áfanga rammaáætlunar hafi ekki verið svarað.

Hörður segist ekki skilja af hverju tillögurnar hafi verið unnar í tímaþröng.

Verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar skilaði á föstudag umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum sínum að flokkun virkjunarkosta. Um er að ræða fyrsta skiptið sem lögð er fram tillaga unnin í samræmi við lög um rammaáætlun sem tóku gildi að fullu árið 2013.

„Í þessu ferli erum við að taka sem þjóð mjög mikilvægar ákvarðanir um nýtingu og vernd auðlindanna. Verkefnisstjórn hefur þurft að vinna vinnu sína í tímaþröng sem hefur haft veruleg áhrif á vinnu þeirra og ekki hefur náðst að skoða mjög mikilvæg atriði sem snúa að samfélagi og efnahag,“ segir Hörður. „Einnig kemur það sterkt fram hjá faghópi fjögur að þetta sé ekki í samræmi við hvernig aðrar þjóðir vinni að svona ákvörðunum,“ bætir Hörður við

Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnar, viðurkenndi í samtali við RÚV að rammaáætlun hefði verið unnin í tímaþröng.

Hörður segist ekki skilja af hverju liggi á að taka svona umfangsmiklar ákvarðanir um flokkunina, það sé ljóst að þrýstingurinn komi ekki frá Landsvirkjun.

„Við teljum að það vanti inn í þessar tillögur. Vissulega var ágætt að flokka einhverja kosti en við þessar aðstæður hefði verið skynsamlegra að fjölga kostum í biðflokki og gefa aðilum færi á að vinna greiningar sem snúa að áhrifum á samfélag og efnahag áður en svona umfangsmiklar ákvarðanir eru teknar,“ segir forstjóri Landsvirkjunar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×