Innlent

Forstjóri HB Granda varar við of mikilli bjartsýni

Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikil óvissa hefur ríkt meðal starfsmanna HB Granda á Akranesi eftir að stjórn fyrirtækisins kynnti þá ákvörðun að hætta botnsfiskvinnslu í bænum. Bæði bæjaryfirvöld og verkalýðsfélög á staðnum hafa óskað eftir því að stjórn fyrirtækisins endurskoði ákvörðunina.

Í gær sendi bærinn frá sér viljayfirlýsingu um að ganga frá samkomulagi við HB Granda um umfangsmiklar framkvæmdir og endurbætur á hafnaraðstöðu gegn því að fyrirtækið félli frá ákvörðun sinni.

Um 270 manns starfa hjá HB Granda á Akranesi, þar af 93 við botnfiskvinnslu. Forstjóri fyrirtækisins fundaði með starfsfólki fyrirtækisins og fulltrúum verkalýðsfélaga í dag og í kjölfarið var ákveðið að ganga til viðræðna við bæjaryfirvöld og fresta ákvörðun um lokun í fimm mánuði.

„Við höfum ákveðið að ganga til viðræðna við Akranesbæ á grundvelli viljayfirlýsingar sem þeir gáfu út í gær og sjá hvert það leiðir okkur,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akranesbæjar, er bjartsýnn á að hægt verði að ganga frá sakomulagi áður en til lokunar kemur í september.

„Eins og ég hef sagt þá þarf þrjá til,“ segir Sævar Freyr. „Þriðji aðilinn er Faxaflóahafnir og ég er sannfærður um að þeir muni ekki liggja á liði sínu til þess að koma þessu í heila höfn.“

Forstjóri HB Granda varar þó við of mikilli bjartsýni.

„Með því að ganga til þessa viðræðna á erum við í sjálfu sér ekki að skuldbinda okkur til þess að hér verði áfram botnfisksvinnsla. Gangi væntingar bæjaryfirvalda ekki eftir þá mun botnfiskvinnslu vera hætt hér í september.“


Tengdar fréttir

Forstjóri HB Granda: „Við erum ekkert í neinum leik“

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að verði yfir það í dag hvort að áform bæjarstjórnar Akraness um uppbyggingu á hafnarsvæði bæjarins breyti einhverju um þær fyrirætlanir útgerðarinnar að flytja landvinnslu botnfisks frá Skaganum og til Reykjavíkur.

Vilhjálmur segir frestun uppsagna vera varnarsigur

"Þetta er viss varnarsigur sem er fólginn í þessu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðs Akraness, um ákvörðun HB Granda að fresta uppsögnum í botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi og hefja viðræður við Akranesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×