Viðskipti innlent

Forstjóri Haga gefur lítið fyrir „vangaveltur“ um sölu innherja á hlutabréfum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga
Finnur Árnason, forstjóri Haga
Finnur Árnason forstjóri Haga hefur sent frá sér tilkynningu vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins í dag en þar var greint frá því að lykilstjórnendur og tengdir aðilar hafi á undanförnum vikum selt hlutabréf sín í félaginu. Í tilkynningunni segir að rekstur Haga gangi vel og hafi gengið vel og að „vangaveltur um sölu lykilstarfsmanna á hlutabréfum, þar sem salan er tengd aukinni samkeppni er fyrst og fremst tilgáta og er hún órökstudd.“

Á meðal þeirra sem seldu hlut sinn í Högum var eiginkona Finns en í júlí seldi hún rúmlega milljón hluti í genginu 47,8. Eftir viðskiptin á hún enn hlut í félaginu sem metinn er á um 200 milljónir króna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gætir titrings á smásölumarkaði vegna komu Costco til landsins en verslunin mun opna í mars á næsta ári.

Hlutabréf í Högum hafa lækkað um 2,8 prósent í morgun og nema viðskipti með bréf félagsins 150 milljónum króna. Tilkynningu Finns má sjá í heild hér að neðan:

„Rekstur Haga gengur vel og hefur gengið vel undanfarin ár.  Félagið hefur unnið markvisst að því að styrkja efnahag sinn og minnka langtímaskuldir til þess að geta sinnt viðskiptavinum sínum enn betur.  Á sama tíma hefur félagið verið undirbúið undir aukna samkeppni.  Félagið hefur m.a. notið faglegrar ráðgjafar frá erlendum sérfræðingum sem hafa styrkt stefnumörkun félagsins.

Vangaveltur um sölu lykilstarfsmanna á hlutabréfum, þar sem salan er tengd aukinni samkeppni er fyrst og fremst tilgáta og er hún órökstudd. Það er mikilvægt að árétta að öll viðskipti innherja, hvort sem er með hlutabréf Haga eða önnur í Kauphöllinni eru opinber og tilkynnt um leið og þau eiga sér stað.“ 


Tengdar fréttir

Stjórnendur og innherjar selja bréf í Högum

Innherjar og lykilstjórnendur Haga hafa upp á síðkastið losað sig við milljónir hluta í fyrirtækinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gætir titrings á markaði vegna komu Costco til landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×