Erlent

Forseti Tyrklands: Konur eru ekki jafnar karlmönnum

Bjarki Ármannsson skrifar
Ummæli Erdogan hafa oft vakið mikla gagnrýni og þau sögð andfemínísk.
Ummæli Erdogan hafa oft vakið mikla gagnrýni og þau sögð andfemínísk. Vísir/AP
Recep Erdogan Tyrklandsforseti segir að ekki sé hægt að bera konur og karlmenn saman sem jafningja og að femínistar átti sig ekki á mikilvægi móðurhlutverksins.

Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu forsetans á ráðstefnu um jafnréttismál í Istanbul í dag. Fréttastofa BBC segir forsetann með þessu reyna að höfða til strangtrúaðra fylgjenda sinna.

„Á vinnustaðnum er ekki hægt að koma eins fram við karlmann og ólétta konu,“ er haft eftir Erdogan. „Konur geta ekki unnið sömu vinnu og karlmenn því það stríðir gegn blíðu eðli þeirra.“

Ummæli Erdogan, sem var forsætisráðherra Tyrklands í ellefu ár, hafa oft vakið mikla gagnrýni og þau sögð andfemínísk. Hann hefur mælt gegn fóstureyðingum og fæðingum með keisaraskurði og hvetur konur til að eignast þrjú börn.

Þá vakti það ekki síður furðu fyrr í þessum mánuði þegar Erdogan hélt því fram að múslimar hefðu uppgötvað Ameríku heilum þremur öldum fyrir landnám Kólumbusar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×