Handbolti

Forseti Íslands á leiðinni á HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni fagnar Margréti Láru Viðarsdóttur, fyrirliða kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 4-0 sigur á Slóvenum í haust.
Guðni fagnar Margréti Láru Viðarsdóttur, fyrirliða kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir 4-0 sigur á Slóvenum í haust. Vísir/Anton Brink
Strákarnir í karlalandsliði Íslands í handknattleik eiga von á góðum stuðningi af áhorfendapöllunum í leiknum á morgun gegn Slóveníu og aftur gegn Túnis á sunnudaginn. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heldur í dag til Frakklands til að styðja við bakið á strákunum okkar.

Okkar menn hófu leik í gær þegar þeir biðu lægri hlut 27-21 gegn Spánverjum. Ísland leiddi í hálfleik 12-10 en Spánverjarnir reyndust mun sterkari í síðari hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur. Margt jákvætt var þó að sjá í leik íslenska liðsins og verður fróðlegt að fylgjast með liðinu í næstu leikjum.

Guðni er mikill íþróttaáhugamaður en bræður hans eru miklir handboltakappar. Annars vegar Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi landsliðsmaður til margra ára og nú landsliðsþjálfari Austurríkis, og Jóhannes Jóhannesson sem spilaði lengi með Stjörnunni.

Forsetinn hefur þegar vakið athygli fyrir framgöngu sína þegar kemur að stuðningi við íslensk íþróttalið. Hann fór á kostum á hlaupabrautinni í Laugardalnum þegar stelpurnar okkar tryggðu sér sæti á EM í Hollandi næsta sumar. Þá hefur hann reglulega tekið Víkingaklappið með gestum á Bessastöðum en einnig sagst meðvitaður um að sumum fyndist það kjánalegt.

„Sumum þykir þetta alveg ofboðslegea lúðalegt og spyrja, hvað er forsetinn að pæla í því að vera að stunda þetta,“ sagði Guðni við nemendur Kvennaskólans í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×