Handbolti

Forseti IHF bannar klístur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hassan Moustafa. Hvað kemur hann með næst?
Hassan Moustafa. Hvað kemur hann með næst? vísir/getty
Að ári liðnu mun handboltinn breytast mikið enda verður þá bannað að nota klístur eða harpix eins og það er einnig kallað.

Það er hinn umdeild forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, Hassan Moustafa, sem leggur þetta til.

„Það eru hættuleg efni í klístrinu sem menga íþróttahúsin. Ég held að eftir ár verðum við búin að útrýma þessu úr íþróttinni,“ sagði Moustafa.

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur þegar hafið hönnun á nýjum handbolta sem er með betra gripi. Klístrið verður því óþarft að þeirra mati.

„Það er búið að setja eina milljón evra í þetta verkefni og það er búið að vinna 80 prósent af vinnunni.“ bætti Moustafa við.

Bannið mun eiga við í öllum keppnum handboltans og handboltamenn mega því byrja að æfa sig að kasta bolta án þess að vera útataðir í harpixi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×