Fótbolti

Forseti FIFA vill sjá vídeódómara á HM 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino með aðdáanda.
Gianni Infantino með aðdáanda. Vísir/EPA
FIFA hefur tekið fyrsta skrefið í átt að því að leyfa dómurum að nýta sér myndbandsupptökur til aðstoðar við dómgæsluna.

Alþjóðaknattspyrnusambandið hefur nefnilega samþykkt að tilraunir verði gerðar með að nota endursýningar í sex löndum á næsta tímabili. AP-fréttastofan segir frá.

Dómarar leikjanna munu þó ekki koma að þessum tilraunum til að byrja með en stefnan sé að það breytist þegar líður á tímabilið. Til að byrja með verða tilraunirnar bara á hliðarlínunni.

Tilraunirnar munu fara fram í áströlsku deildinni, í þýsku Bundesligunni, í deild og bikar í Portúgal, í MLS-deildinni í Bandaríkjunum og svo í ótilteknum keppnum í bæði Brasilíu og Hollandi.

Gianni Infantino, nýr forseti, er mikill baráttumaður fyrir að nýta sér tæknina meira. Hann vonast til þess að "vídeódómarar" verði hluti af dómarateyminu á HM í Rússlandi 2018.

Samkvæmt þessum nýju hugmyndum þá munu dómarar fá að nýta sér myndbandatæknina til að meta um hvort mark hafi verið skorað, hvort rétt hafi verið að dæma víti eða reka menn útaf sem og að að réttur aðili fá refsingu.

Eina tæknin sem er notuð í fótboltanum í dag er marklínutæknin en auðvitað nýtir dómarateymið sér nýjustu tækni þegar þeir dómari og aðstoðarmenn hans tala saman í gegnum fjarskiptatæki sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×