Fótbolti

Forseti FIFA segir meirihluta knattspyrnusambanda heims styðja 48 þjóða HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino með Cristiano Ronaldo.
Gianni Infantino með Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Það lítur flest út fyrir það að heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði orðin 48 þjóða keppni áður en langt um líður.

Gianni Infantino, forseti FIFA, er mikill talsmaður þess að stækka heimsmeistarakeppnina enn frekar en hún hefur verið 32 þjóða keppni frá og með HM í Frakklandi 1998.

Infantino hefur nú gefið það út opinberlega að hann hafi stuðning meirihluta knattspyrnusambanda heimsins fyrir því að stækka heimsmeistarakeppnina.  BBC segir frá.

Ein hugmynd frá Infantino er að byrja heimsmeistaramótið á sextán þriggja liða riðlum þar sem tvö efstu liðin myndu tryggja sér sæti í 32 liða úrslitum.

Ákvörðun um framtíð heimsmeistarakeppninnar verður tekin í janúar næstkomandi en það þykir þó ólíklegt að fyrsta 48 þjóða heimsmeistarakeppnin fari þó fram fyrir árið 2026.

Næsta heimsmeistarakeppni fer fram í Rússlandi 2018 og fjórum árum síðar verður keppnin haldin á miðju tímabili í Katar. Það er því ekkert svigrúm til að breyta þessum keppnum.

Bæði stóru mótin í fótboltanum, HM og EM, hafa verið að stækka á undanförnum áratugum og UEFA tók stórt skref í síðustu Evrópukeppni.

Evrópukeppnin í sumar var nefnilega fyrsta EM sem inniheldur 24 þjóðir en hún hafði verið sextán þjóða keppni áður. Ísland var með á sínu fyrsta stórmóti á EM í Frakklandi.

Það er ljóst að möguleikar Ísland á HM myndu aukast með fleiri sætum í boði en strákarnir okkar hafa samt sett stefnuna á það að vera meðal þeirra 32 landsliða sem keppa á HM í Rússlandi sumarið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×