Sport

Forseti alþjóða Ólympíunefndarinnar: Munum ekki sýna neina miskunn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bandaríska frjálsíþróttakonan Marion Jones var svipt öllum fimm gullverðlaunum sem hún vann á ÓL 2000 vegna lyfjamisnotkunar.
Bandaríska frjálsíþróttakonan Marion Jones var svipt öllum fimm gullverðlaunum sem hún vann á ÓL 2000 vegna lyfjamisnotkunar. vísir/getty
Eins og fram kom á Vísi á sunnudaginn hefur enska blaðið Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD í fórum sínum gögn sem sýna fram á lyfjamisnotkun margs af fremsta frjálsíþróttafólks heims á síðustu árum. Gögnunum, sem tilheyrðu alþjóða frjálsíþróttsambandinu, var lekið til fjölmiðla á dögunum.

Þetta er niðurstaða um 12.000 blóðsýna úr 5000 íþróttamönnum. Alls eru 146 verðlaunahafar, þar af 55 Ólympíu- og heimsmeistarar í þolgreinum, sagðir vera með grunsamleg blóðsýni. Sýnin voru tekin á árunum 2001-12.

Thomas Bach, forseti alþjóða Ólympíunefndarinnar, segir að þeim íþróttamönnum sem reynast hafa svindlað verði ekki sýnd nein miskunn.

„Eins og staðan er núna er aðeins um óstaðfestar ásakanir að ræða og við verðum að virða það að íþróttafólkið er saklaust uns sekt er sönnuð,“ sagði Bach í samtali við BBC.

„En ef satt reynist mun alþjóða Ólympíunefndin ekki sýna neina miskunn og ganga hart fram,“ bætti Bach við en óháð nefnd á vegum alþjóða lyfjanefndarinnar mun rannsaka málið og komast að raun um það hvort ásakanirnar séu á rökum reistar.


Tengdar fréttir

Lyfjahneyksli skekur frjálsíþróttaheiminn

Enska blaðið Sunday Times og þýska sjónvarpsstöðin ARD hafa í fórum sínum gögn sem sýna fram á lyfjamisnotkun margra af fremstu frjálsíþróttamanna og -kvenna heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×