Innlent

Forsætisráðherra vill aukna samvinnu við Kína

Heimir Már Pétursson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsir ánægju sinni með fjölgun ferðamanna frá Kína til Íslands í viðtali við kínverska ríkisfjölmiðilinn Xinhua . Þar er greint frá því að 23 þúsund ferðamenn frá Kína hafi sótt Ísland heim á fyrstu ellefu mánuðum þessa árs og sé það fjölgun upp á 49 prósent.

Fréttavefurinn China Daily greinir frá viðtalinu og þar býður forsætisráðherra kínverska ferðamenn hjartanlega velkomna til Íslands. „Við erum mjög ánægð með vöxt ferðaþjónustunnar og þá alveg sérstaklega með stóran hóp kínverskra ferðamanna sem við fögnum mjög,“ er haft eftir Sigmundi Davíð.

Ástæða þess að Íslendingar séu svo glaðir með fjölgun kínverskra ferðamanna sé að þeir vilji hvetja til eins mikils samstarf við Kínverja og mögulegt sé.

„Kína er á margan hátt land framtíðarinnar. Land í vexti á mörgum sviðum. Kínverjar hafa sýnt Íslandi áhuga og við erum svo sannarlega áhugasöm um Kína. Allt sem eykur samvinnu milli landanna er af hinu góða,“ segir Sigmundur Davíð í viðtalinu.

Þá er haft eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra ferðamála að hún sé ánægð með fjölgun ferðamanna frá Kína og hún vilji sjá að þeim fjölgi enn meira. Íslensk ferðamálasamtök hafi staðið fyrir markaðskynningum í nokkrum borgum Kína. Þá sé íslensk ferðaþjónusta að búa sig undir mikla fjölgun ferðmanna með styrkingu innviða ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Þá er greint frá því að tímaritið Icelandic Times hafi nýlega hafið útgáfu á kínversku til að uppfræða kínverska ferðamenn sem koma til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×