Innlent

Forsætisráðherra segir mikilvægt að rannsaka fangaflug

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra upplýsti á Alþingi í morgun að hafin væri rannsókn á því í utanríkisráðuneytinu hvort Ísland hafi verið misnotað af bandarísku leyniþjónustunni til að millilenda hér með ólöglega fanga. Hann tók undir með formanni Samfylkingarinnar að mikilvægt væri að kanna þetta mál á allan þann hátt sem kostur væri.

Það má eiginlega segja að sá fátíði atburður hafi gerst í þinginu í morgun að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar voru sammála. En afar erfitt er að muna tilvik þar sem það hefur gerst áður.

Árni Páll spurði forsætisráðherra út í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar um pyntingar á föngum og saklausu fólki og ætla mætti að Ísland hafi verið nýtt til millilendinga með slíka fanga. En árið 2007 hafi verið mörkuð sú stefna að leita í flugvélum sem grunur lék á að væru með fanga CIA.

En það er lítið vitað um tímabilið frá 2001 til 2007. Ég vil þess vegna spyrja hæstvirtan forsætisráðherra hvort þessi skýrsla kalli ekki á það að Ísland geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni og við grennslumst fyrir um það til fulls hvað gerðist á þessum árum,“ sagði Árni Páll.

Og spurði hvort stjórnvöld fyrir þennan tíma hafi veitt fyrirheit um leyfi til lendinga af þessu tagi.

Forsætisráðherra sagðist ekki vita til þess að slík fyrirheit hafi verið gefin. Árið 2007 hafi verið skrifuð skýrsla um þessi mál.

„Og nú veit ég til þess að utanríkisráðuneytið er aftur að fara yfir málið og rannsaka það í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í fyrrnefndri skýrslu. Það er að segja skýrslu bandaríkjaþings,“ sagði Sigmundur Davíð.

Þessi vinna stæði yfir í utanríkisráðuneytinu og vonandi lægi niðurstaða fyrir sem fyrst.

„Því það má taka undir það með háttvirtum þingmanni að þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál og mjög mikilvægt að kanna á allan þann hátt sem sem kostur er, hvort aðstaða á Íslandi hafi á einhvern hátt verið misnotuð í þessum aðgerðum,“ sagði forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×