Erlent

Forsætisráðherra Finnlands sakaður um að þagga niður í fjölmiðlum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands.
Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands. Vísir/Getty
Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands, hefur hafnað ásökunum um að hafa reynt að koma í veg fyrir fréttaflutning af ásökunum gegn honum og fjölskyldu hans. BBC fjallar um málið.

Hann hafnar einnig ásökunum um að hagsmunaárekstur hafi átt sér stað þegar námufyrirtæki í eigu ríkisins gerði samningi við fyrirtæki í eigu fjölskyldu hans.

Finnska ríkisstjórnin veitti á sínum 100 milljónum evra, um 12 milljörðum króna, í ríkisaðstoð til námufyrirtækisins Terrafame sem rekið er fyrir skattfé Finna. Fyrirtækið átti í talsverðum erfiðleikum.

Síðar kom í ljós að Terrafame hafi veitt Katera Steel, fyrirtæki í eigu ættingja Sipila, samning upp á um 500 þúsund evrur, um 60 milljónir króna.

Sipila segist ekkert hafa gert rangt vegna málsins og hafnar því að hann hafi aðkomu að því að gerður yrði samningur við Katera Steel. Umboðsmaður finnska þingsins rannsakar nú hvort að um hagsmunarárekstur hafi verið að ræða.

Ríkissjónvarpið hætti við fréttaflutning

Forsætisráðherrann er einnig sakaður um að hafa reynt að koma í veg fyrir fréttaflutning af málinu. Í ljós hefur komið að Sipila sendi fjölda tölvupósta til Yle, finnska ríkissjónvarpsins, þar sem hann kvartar undan fréttaflutningi af málinu.

Finnskir fjölmiðlar greina frá því að Yle hafi hætt við að birta nokkrar fréttir af málinu þar sem fjallað var um meintan hagsmunaárekstur Sipila. Talsmaður YLE hafnar því þó að það hafi verið vegna tölvupósta Sipila og bendir á að fjölmargar fréttir af málinu hafi verið sagðar hjá fjölmiðlum Yle.

Ákveðið verið að bíða með þær fréttir sem ekki voru birtar vegna þess að yfirmenn hafi metið stöðuna svo að rétt væri að bíða með þangað til að rannsókn málsins væri lokið af hálfu þar bæra aðila.

Líkt og áður segir þvertekur Sipila fyrir að hafa reynt að koma í veg fyrir fréttaflutning. Hann segist einfaldlega hafa verið að kvarta undan því að fá ekki tækifæri til þess að svara fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×