Fótbolti

Forráðamenn Watford sakaðir um gagnafölsun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giampaolo Pozzo, eigandi Watford.
Giampaolo Pozzo, eigandi Watford. Vísir/Getty
Enska dagblaðið The Telegraph uppljóstraði í morgun að knattspyrnuyfirvöld á Englandi hafi nú til skoðunar ásakanir um að forráðamenn Watford hafi falsað skjöl í tengslum við yfirtöku nýs eiganda árið 2014.

Gino Pozzo keypti félagið áður en keppnistímabilið hófst haustið 2014 en í lok þess náði það að vinna sér sæti í ensku úrvalsdeildinni, þar sem það leikur nú.

The Telegraph fullyrðir að umrætt skjalafals snúist um að eignarhaldsfélag Pozzo hafi haft næga fjármuni til að standa undir bankaábyrgð sem var gefin út en hún var nauðsynleg svo að Pozzo gæti gengið frá kaupunum.

Watford gaf út yfirlýsingu vegna fréttarinnar þar sem að því er haldið fram að málið komi eigendum félagsins í opna skjöldu og að það hafi ráðið utanaðkomandi lögfræðinga til að rannsaka málið. Enn fremur er fullyrt að Pozzo og aðrir forráðamenn félagsins hafi ekkert vitað um málið.

Ef að upp kemst að Watford hafi brotið reglur er líklegt að félagið fái myndarlega sekt og að stig verði jafnvel dregin af liðinu, sem er þó ólíklegt samkvæmt frétt Sky Sports um málið.

Watford er sem stendur í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tólf stig að loknum níu umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×