Viðskipti innlent

Formlegt ferli vegna hópuppsagnar hafið á Akranesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda.
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. Vísir/Eyþór
HB Grandi hefur hafið formlegt samráð vegna hópuppsagnar eftir að tilkynnt var um að fyrirtækið hyggist láta af botnfiskvinnslu félagsina á Akranesi. Störf 93 starfsmanna félagsins er í hættu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var í húsnæði HB Granda á Akranesi þar sem Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda sat fyrir svörum.

Í máli hans kom fram að endanleg ákvörðun um lokunina hafi ekki verið tekinn en farið verður yfir stöðuna á miðvikudaginn. Í lögum um hópuppsagnir er kveðið á um samráð atvinnurekanda og starfsmanna í gegnum trúnaðarmann eða annan fulltrúa starfsmanna. Staðfesti Vilhjálmur að þetta ferli væri hafið.

Ekki væri þó búið að hafa samband við Vinnumálastofnun en samkvæmt lögum er félaginu skylt að tilkynna Vinnumálastofnun um hópuppsagnir eftir að áðurnefnt samráð fer fram.

Haldinn var starfsmannafundur hjá HB Granda á Akranesi áður en blaðamannafundurinn var hafinn og sagði Vilhjálmur að hljóðið í starfsmönnum væri dauft.

Stefnt er að því að sameina botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi við vinnsluna í Reykjavík en Vilhjálmur sagði að það yrði að koma í ljós hvort að einhver störf yrðu flutt frá Akranesi til Reykjavíkur. Alls starfa 93 starfsmenn í botnfiskvinnslu félagsins á Akranesi.

Á Akranesi starfa nú um 270 starfsmenn innan samstæðu HB Granda, þar af starfa 93 við botnfiskvinnsluna. HB Grandi rekur, auk botnfiskvinnslunnar, skipaverkstæði, fiskimjölsverksmiðju, loðnuvinnslu og tvö dótturfyrirtæki, Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi.

Vilhjálmur sagði að styrking krónunnar og sú staðreynd að fiskverð hafi haldist nær óbreytt í tvö ár vegi þungt í þessari ákvörðun sem væri þung.

„Þetta hefur mikil áhrif á okkar starfsfólk og Skagamenn yfir höfuð. Þetta eru ekki góð tíðindi,“ sagði Vilhjálmur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×