Sport

Formaður stjórnar CrossFit-sambandsins: Ekki óheppileg uppákoma fyrir okkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðrún Linda Pétursdóttir, formaður stjórnar CrossFit-sambands Íslands, segist ekki hafa orðið vitni að því þegar Hinrik Ingi Óskarsson hótaði starfsmönnum lyfjaeftirlits Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) barsmíðum eftir Íslandsmeistaramótið í CrossFit í Digranesinu í gær.

„Ég varð ekki vitni að neinu slíku. Öll framkvæmd lyfjaprófsins er í höndum lyfjaeftirlitsins. Við komum ekkert nálægt því, hvorki að velja í prófin né framkvæma þau á neinn hátt,“ sagði Guðrún Linda í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Aðspurð hvort uppákoman í Digranesinu í gær sé ekki vandræðaleg fyrir CrossFit-sambandið hafði Guðrún Linda þetta að segja:

„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það er lyfjaprófað í CrossFit. Okkar helstu íþróttamenn eru prófaðir oft á ári. Þetta er ekki óheppilegt, við lítum bara á þetta sem tækifæri til að taka mjög harða afstöðu gegn lyfjanotkun og allar stöðvarnar standa saman í því. Þetta er eitthvað sem við viljum ekki hafa innan íþróttarinnar á Íslandi,“ sagði Guðrún Linda.

Þetta mun þó vera í fyrsta skipti sem lyfjaeftilit ÍSÍ kemur að lyfjaprófun.

Eins og fram kom Vísi í gær neituðu Hinrik Ingi og Bergur Sverrisson, sem enduðu í 1. og 2. sæti í karlaflokki, að gangast undir lyfjapróf eftir mótið. Þeir voru í kjölfarið sviptir verðlaunum sínum og dæmdir í tveggja ára keppnisbann frá CrossFit á Íslandi.

Í samtali við Vísi þvertekur Hinrik fyrir að hafa haft í hótunum við starfsmenn lyfjaeftirlitsins og segist vera tilbúinn að gangast undir lyfjapróf.


Tengdar fréttir

Hinrik Ingi: Ég er til í að fara í lyfjapróf

"Ég hef ekkert að fela. Ég fór ekki í lyfjaprófið því mér fannst vera brotið á mér. Mér fannst þetta vera ófagmannlega gert og asnalegt,“ segir Hinrik Ingi Óskarsson sem í gær varð Íslandsmeistari í CrossFit en síðan sviptur gullverðlaunum og settur í tveggja ára bann af því hann neitaði að fara í lyfjapróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×