Innlent

Formaður SHÍ um verkfall SFR: „Við skiljum afstöðu rektors en erum kannski ekki með bros á vör“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. mynd/shí
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir stúdenta komna með leið á því að vera notaðir sem verkfæri í verkfalli en að óbreyttu hefst verkfall 5.500 ríkisstarfsmanna á fimmtudaginn.

 

Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi HÍ þar sem umsjónarmenn bygginga skólans eru í SFR. Þeir munu því hvorki opna byggingar HÍ né kennslustofur komi til verkfalls. Hefðbundin kennsla mun því lamast ef frá er talin kennsla í Háskólabíói þar sem umsjónarmaður þeirrar byggingar er ekki í SFR. Kennsla mun því fara fram þar.

Jón Atli Benediktsson, rektor háskólans, sagði í samtali við Vísi í seinustu viku að hann myndi virða verkfallsrétt starfsmanna skólans og ekki fara um og opna byggingar og stofur.

„Við viljum auðvitað ekki hvetja rektor til þess að standa ekki með sínu starfsfólki sem yfirmaður. Við skiljum afstöðu rektors en erum kannski ekki með bros á vör,“ segir Aron í samtali við Vísi.

Hann segir stúdenta vonast til að kjaradeilan leysist sem allra fyrst.

„Það er auðvitað fyrirséð að þetta er ekki eini dagurinn sem kennsla mun falla niður. Þetta hefur mikil áhrif á starfsemi skólans og skerðir tvímælalaust nám stúdenta að komast ekki í fyrirlestra. Við hvetjum hins vegar bara kennara að nýta tækifærið ef það kemur til verkfalls og skoða aðrar leiðir til að miðla kennsluefninu, til dæmis með því að taka fyrirlestrana upp og setja þá á netið.“


Tengdar fréttir

Skellt í lás í Háskóla Íslands

Hefðbundin kennsla í Háskóla Íslands mun lamast komi til verkfalls SFR þar sem kennslustofur verða ekki opnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×