Innlent

Formaður SHÍ: Ekkert tapast á því að LÍN-frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu á þingi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristófer segir SHÍ telja að það tapist ekkert á því að LÍN-frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu núna.
Kristófer segir SHÍ telja að það tapist ekkert á því að LÍN-frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu núna. vísir
„Samkvæmt lögum þurfum við þrjá daga til að boða til fundar. Næsti fundur er boðaður á laugardaginn og stjórnin tók einhuga þá ákvörðun að álykta því það væri ekki tími til að fara með þetta fyrir allt ráðið. Við ákváðum að við þurftum að bregðast við í þessu máli til að gæta hagsmuna stúdenta,“ segir Kristófer Már Maronsson formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands aðspurður um það hvers vegna stjórn SHÍ en ekki ráðið sjálft hafi ályktað um það að LÍN-frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra skuli fara í gegnum fyrstu umræðu á þingi.

Eins og greint var frá í fjölmiðlum í gær hyggst stjórnarandstaðan stöðva frumvarpið þar sem hún vill meiri tíma til að kynna sér það. Þá hafa Samtök íslenskra námsmanna erlendis einnig mótmælt því með ályktun að frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu og gangi þannig til nefnda.

Kristófer segir SHÍ telja að það tapist ekkert á því að frumvarpið fari í gegnum fyrstu umræðu núna. Það gæti hins vegar tapast eitthvað á því ef það færi ekki í gegn fyrr en í haust og nefnir Kristófer að hann geri ráð fyrir því að nefndir Alþingis óski eftir umsögnum áður en þingið fari í frí en fjórir nefndardagar eru á þingi í næstu viku. Stúdentaráð geti þá nýtt tímann í sumar til að vinna og skila inn sinni umsögn.

Jóhannes Stefánsson, aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra.
„Ef ykkur líst vel á frumvarpið svona við fyrstu sýn þá endilega tjáið ykkur um það“

Blaðamaður nefnir að hann hafi heimildir fyrir því að aðstoðarmaður Illuga Gunnarssonar, Jóhannes Stefánsson, hafi haft samband við fulltrúa stúdentahreyfinganna í landinu og hvatt þær til að fjalla um frumvarpið á jákvæðan hátt svo það gæti einmitt farið í fyrstu umræðu. Aðspurður hvort að hann telji eðlilegt að stjórnvöld skipti sér með þessum hætti af hagsmunabaráttu stúdenta segir Kristófer:

„Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér. Hann hafði vissulega samband en hann sagði „Ef ykkur líst vel á frumvarpið svona við fyrstu sýn þá endilega tjáið ykkur um það.“ Hann hvatti okkur sem sagt til þess ef okkur líst vel á það. Við fögnuðum því að það væri komið fram og það væri margt sem liti vel út í því en það væri hins vegar ekki búið að greina það nógu vel til þess að við gætum tekið afstöðu,“ segir Kristófer og bætir við að aðstoðarmaður menntamálaráðherra hafi „verið ótrúlega vinveittur“ þegar kæmi að því að veita SHÍ upplýsingar um frumvarpið.

Þarf að reikna út og greina áhrifin á stúdenta Háskóla Íslands

Formaður Stúdentaráðs hefur fagnað því að frumvarpið sé komið fram og sagt að sér lítist vel á það við fyrstu sýn. En hefur hann ekkert við það að athuga?

„Í umsögn sem Stúdentaráð skilaði til endurskoðunarnefndarinnar um LÍN vildum við að styrkirnir og lánin yrðu greidd út mánaðarlega en ekki eftir á eins og er lagt til. Þannig að það er eitthvað sem við gerum athugasemd við. Hins vegar þurfum við að fá tíma til að skoða frumvarpið enn betur og reikna út áhrifin. Mér finnst því mjög mikilvægt að það fari fram upplýst umræða um þetta á stúdentaráðsfundi þegar við erum búin að reikna út og greina áhrifin á stúdenta Háskóla Íslands sem eru mjög fjölbreyttur hópur,“ segir Kristófer.

En líst formanni SHÍ vel á frumvarpið?

„Ég get einfaldlega ekki tjáð afstöðu Stúdentaráðs áður en hún liggur fyrir en við fyrstu sýn leist okkur vel á þetta. En hverjum líst ekki vel á þetta sem hagsmunaaðili fyrir hóp sem er ekki að fá neitt en líka fyrir hóp sem er að fá lítið í núverandi kerfi?“ segir Kristófer.


Tengdar fréttir

Þingmaður Pírata telur LÍN-frumvarpið glópagull

Ásta Guðrún Helgadóttir þingmaður Pírata segir að nýtt frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé á heildina litið mjög slæmt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×