Handbolti

Formaður HSÍ um árásina á Aron: Lögreglan að skoða myndbandsupptökur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/Anton
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, tjáði sig um líkamsárásina á landsliðsmanninn Aron Pálmarsson í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson á æfingu íslenska handboltalandsliðsins í dag.

„Þetta er ekkert stórmál þannig. Þetta er bara óheppni að þetta á sér stað þessa helgi. Við erum bara að vinna úr því máli og að aðstoða hann við að kæra þessa líkamsárás sem virðist hafa verið alveg upp úr þurru," sagði Guðmundur B. Ólafsson.

„Því miður þá er þetta að gerast um hverja helgi í bænum. Það eru slagsmál án nokkurs tilefnis og hann er óheppinn að lenda í því," sagði Guðmundur.

„Hann er bara að labba með félaga sínum og er bara sleginn. Það er ekkert meira í því og það urðu engin áflog heldur bara þetta högg sem gerir það að verkum að hann er frá æfingum í einn til tvo daga," sagði Guðmundur.

„Hann fékk skurð á augabrún en ekkert annað. Sem betur er þetta ekki neitt þannig og ekki mikið," sagði Guðmundur.

„Við erum búnir að vera í sambandi við lögregluna og hún er að skoða þetta, myndbandsupptökur og annað. Við erum að reyna að sjá hverjir þetta voru og síðan munum við kæra málið til lögreglu," sagði Guðmundur en hvernig varð Aroni við að lenda í slíkri árás?

„Honum var brugðið við þetta en hann jafnar sig á þessu. Við gerum ráð fyrir því að hann verði með á HM í Katar," sagði Guðmundur að lokum í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×