Handbolti

Form. handknattleiksdeildar Hauka: Dómararnir hvöttu til leikbrots

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr leik Hauka og Selfoss.
Úr leik Hauka og Selfoss. Vísir/Stefán
Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka kom í Akraborgina og ræddi um kæru félagsins vegna framkvæmdar á leik Selfoss og Hauka í Olísdeild kvenna.

Haukar kærðu leikinn vegna þess að leikmaður Selfoss skipti um treyjunúmer við systur sína á bekknum eftir að treyja hennar hafði rifnað í gegnumbroti. Það er óheimilt að skipta um treyjunúmer í miðjum leik og Haukar, sem töpuðu leiknum, ákváðu að kæra hann.

Haukar hafa nú ákveðið að draga kæru sína til baka og í yfirlýsingu segja Haukar ætla að taka þetta upp á öðrum vettvangi og að þeir harmi jafnframt tómlæti Handknattleikssambands Íslands í málinu.

„Svona mál eru nú almennt séð ekki afgreidd á samfélagsmiðlum og svona mál eru ekki oft í deiglunni eða að það séu oft lagðar fram kærur í handbolta eða öðrum íþróttum. Þetta er í fyrsta skiptið fyrir mig á löngu ferli sem ég fæ að upplifa annað eins hafarí eins og varð,“ sagði Þorgeir Haraldsson.

„Maður sjálfur og félagið er bara varnarlaus fyrir svona vitleysu eins og ég kalla þetta. Reglur í íþróttum eru skrifaðar mjög skýrt og þær gilda alltaf en ekki bara stundum og ekki bara fyrir suma,“ sagði Þorgeir.

„Innihaldið í þessu er að okkur finnst í þessu tilfelli verið að „downgrada“ kvennaboltann verulega mikið miðað við það að þetta brot á framkvæmd er mjög skýrt. Þetta er óheimilt. Meir að segja er það þannig að þú átt að vera í sama númeri allan veturinn,“ sagði Þorgeir.

„Við ákváðum að draga þetta til baka því það eru takmörk fyrir því hvað menn geta látið yfir sig ganga hvort sem það er félagið okkar eða persónurnar sem stýra því. Við ákváðum að bjóða Selfyssingunum með okkur til fundar á laugardaginn,“ sagði Þorgeir en þar sögðu haukarnir frá sinni hlið og tilkynntu jafnframt að þeir myndu draga kæruna til baka.

„Þú ræður ekkert við samfélagsmiðla, það er alveg ljóst. Þegar við minnumst á tómlæti þá er það einmitt það sem við verðum að geta treyst á. Sambandið, sem setur reglurnar og er regnhlíf yfir okkur félögin, þarf að rísa upp og verja sína aðila. Það hefur ekki komið hósti eða stuna frá þeim aðila sem er Handknattleiksambandið frá því að þetta gerðist. Það er það sem svekkir okkur mest í þessu,“ sagði Þorgeir.

„Málið liggur svo ljóst fyrir. Það sem við vitum og vissum strax um kvöldið að í upphafi var það ekki meining Selfyssinga að fara í það sem gerðist þarna. Þau voru hvött til eða sagt að það væri í lagi að brjóta reglunar af dómurum leiksins sem eru gæslumenn og ábyrgðarmenn fyrir því að hlutirnir séu rétt framkvæmdir í leik,“ sagði Þorgeir.

„Við getum ekki kært dómara fyrir eitt eða neitt en við getum kært umgjörð leiksins.Til að gera það urðum við að kæra leikinn og forsendur kærunnar voru þessar. Þannig teljum við að við náum til dómaranna og þeirra sem eru ábyrgir fyrir þessu,“ sagði Þorgeir.

„Þetta myndi aldrei gerast á stærra sviði. Innihaldið í þessu er það að það verða að gilda sömu reglur hvort sem að þetta sé kvennahandbolti, karlahandbolti, Evrópuhandbolti eða eitthvað annað. Þetta eru bara sömu lög og reglur,“ sagði Þorgeir.

„Þeir vita miklu betur þessir drengir. Þetta er dómarapar númer tvö á landinu og par sem dæmir í Meistaradeild og Evrópudeild og hafa staðið sig prýðilega vel þar og ekkert yfir því að kvarta. Það hlýtur að vera á hreinu að þeir viti hvernig eigi að bregðast við og þekki reglurnar,“ sagði Þorgeir.

Það má finna allt viðtalið við Þorgeir Haraldsson í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×