Innlent

Foreldrasamvinna lágmarkar skaðleg áhrif skilnaðar á börn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölskylduráðgjafi hjá Tengslum, er höfundur bókarinnar Eftir skilnað sem fjallar um þau áhrif sem skilnaðir hafa á lífsgæði barna.
Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölskylduráðgjafi hjá Tengslum, er höfundur bókarinnar Eftir skilnað sem fjallar um þau áhrif sem skilnaðir hafa á lífsgæði barna. Mynd/Daníel
Því betri foreldrasamvinna við skilnað, því meiri sátt og vellíðan fyrir barnið. Því meiri ágreiningur milli foreldra, því neikvæðari áhrif á barnið og kynslóðatengslin.

Þetta er ein af niðurstöðum rannsóknar um áhrif skilnaða á lífsgæði barna. Í bókinni Eftir skilnað er greint frá rannsókninni þar sem tekin voru viðtöl við einstaklinga í sextán fjölskyldum; foreldra sem höfðu gengið í gegnum skilnað og ömmur og afa skilnaðar­barna.

Dr. Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölskylduráðgjafi hjá Tengslum, er höfundur bókarinnar ásamt Sólveigu Sigurðardóttur.

„Foreldrapörin féllu í þrjá hópa og það eru mjög skýr og ólík þemu sem einkenna hópana. Bestu foreldrasamvinnuna, þar sem minnsta röskunin á lífi barnanna var í kjölfar skilnaðar, er að finna í samtímahópnum. Það er sá hópur sem fer vaxandi í samfélaginu. Þetta eru pör sem skilja án heiftar, taka ákvarðanir í sameiningu og vilja vanda sig til að gæta hagsmuna barna sinna.“

Sigrún segir að í þessum hópi séu feður ekki síður með ábyrgðar­tilfinningu gagnvart börnunum við skilnað og tengir hún það meðal annars við virkari þátttöku feðra í meðgöngu, fæðingu og tengslamyndun við barnið fyrstu árin.

„Þetta eru foreldrarnir sem hafa jafna búsetu barna eftir skilnað, svokallað viku og viku fyrirkomulag. Mínar rannsóknir og aðrar á Norðurlöndunum sýna að þetta eru úrvalsforeldrarnir. Þeir eru ekki bara metnaðarfullir foreldrar heldur líka metnaðarfullir í starfi og þar af leiðandi hentar þeim oft vel að hafa barnlausa viku til að sinna starfi sínu.“

Foreldrar í rannsókninni skiptust í þrjá hópa.
Góðir vinir eftir skilnað

Jöfn búseta barna hjá foreldrum krefst mikilla samskipta og málamiðlana. Einhverjar gagnrýnisraddir hafa sagt að ef foreldrar geta verið í svona miklum og góðum samskiptum, gætu þeir allt eins haldið áfram að búa saman. Sigrún segir börnin velta þessu einnig fyrir sér því þau skilji ekki af hverju mamma og pabbi geti ekki bara verið saman fyrst þau geti verið svona góðir vinir.

„Þegar fólk skilur þá er það laust undan væntingum og vonbrigðum í sambandinu og það þarf ekki að mæta dýpri þörfum hvort annars. Það er skuldbindingin í sambandinu sem hefur valdið ósætti, óánægju og vansælu. Þegar sú skuldbinding er ekki lengur til staðar þá útleysist allt þetta jákvæða og samskiptin geta aftur orðið góð,“ segir Sigrún. 

Hún segir þó ýmislegt geta komið upp varðandi jafna búsetu sem foreldrar þurfi að vera meðvitaðir um auk þess sem fyrirkomulagið hefur ekki verið fyllilega rannsakað og því margir fyrirvarar.

„Foreldrarnir einbeita sér oft óþarflega mikið að barninu þá viku sem það er hjá þeim. Það getur verið erfitt fyrir lítið barn að uppfylla tilfinningalegar þarfir foreldra sinna, til að mynda nánd og að hjálpa foreldri með sektarkennd. Það má segja að það séu alltaf jól og páskar hjá börnunum, eina vikuna hjá mömmu og hina hjá pabba.“ 

Sigrún segir einnig þurfa að passa upp á tengslin við aðra fjölskyldumeðlimi. „Börnin umgangast ekki ömmu og afa jafn mikið því foreldrarnir tíma ekki að setja börnin í pössun þegar þau eru hjá þeim. Margir foreldrar hafa líka gert samkomulag sín á milli að passa frekar fyrir hvort annað en að fá pössun.“ 

Flestir með sameiginlega forsjá

Langflestir foreldrar sem skilja nú til dags hafa sameiginlega forsjá eða yfir níutíu prósent enda er það meginreglan samkvæmt íslenskum lögum. Í auknum mæli fylgir sameiginlegri forsjá jöfn búseta þótt það sé alls ekki reglan. Foreldrar semja um umgengni í hverju tilfelli enda hefur hugmyndin um jafna búsetu ekki enn komist í lögin. 

„Um leið og jöfn búseta yrði lögfest væri rökrétt að möguleiki væri á tveimur lögheimilum. Í dag er eingöngu hægt að hafa eitt lögheimili og í flestum tilfellum er það hjá móður. Sveitarfélögin hafa verið mótfallin því að breyta þessu því ef foreldrar búa ekki í sama sveitafélagi getur þetta orðið mjög flókið. Það er af því að lögheimilið tengist skráningu og samskiptum við skóla, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og aðra þjónustu sem er í hlutverki sveitarfélagsins að veita.“

Sigrún segir þó mikilvægt fyrir barnið að geta verið skráð á báðum heimilum sínum og bendir á að það sé alls ekki fráleitt að skuldbinda foreldra barns á skólaaldri til að búa í sama sveitarfélagi. 

„Það fylgir því ábyrgð að eignast barn, það er skuldbinding. Þótt foreldrar skilji sem par þá getur það ekki skilið sem foreldrar. Því ber foreldrum að haga málum sínum þannig að það sé til hagsbóta fyrir barnið og setja þarfir þess fram fyrir sínar eigin. Þótt foreldrar sofi ekki í sama rúmi ættu þeir að geta búið í sama sveitarfélagi.“

Skilnaðartíðni á Íslandi

Ísland hefur verið með lægstu skilnaðartíðni af öllum norðurlöndum frá því á áttunda áratuginum.

Sigrún segir meðalaldur Íslendinga sem ganga í hjónaband og eignast fyrsta barn fara hækkandi. Pör skuldbinda sig seinna og það að vera í sambúð í nokkurn tíma áður en barneignir hefjast dregur úr líkum á skilnaði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×