Innlent

Foreldrar sagðir verulega skelkaðir vegna slagsmála unglinga í Kringlunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir hópamyndanir unglinga ekkert sérstakt vandamál í verslunarmiðstöðinni.
Framkvæmdastjóri Kringlunnar segir hópamyndanir unglinga ekkert sérstakt vandamál í verslunarmiðstöðinni. Vísir/GVA
Foreldrar í nágrenni Kringlunnar hafa verið verulega skelkaðir eftir slagsmál unglinga sem áttu sér stað í verslunarmiðstöðinni fyrr í mánuðinum. Fundað var um málið í hverfisráði Háaleitis- og Bústaðahverfis í síðustu viku en greint er frá fundinum í Morgunblaðinu í dag.

Fundir hverfisráðsins eru lokaðir og vildi enginn staðfesta við Morgunblaðið hvað hafi nákvæmlega farið fram þar, en þó er haft eftir Sigtryggi Jónssyni, sem situr í hverfisráðinu, að eðlilegt sé að slík mál séu á dagskrá eftir að upp komst um slagsmál unglinga í Kringlunni.

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir hópamyndirnir barna og unglinga í verslunarmiðstöðinni ekkert sérstakt vandamál. Komið hafi upp tímabundin vandamál sem eru leyst með félagsmiðstöðvum á svæðinu, foreldrum og lögreglu.

„Ég geri ráð fyrir að þetta tengist slagsmálum sem voru hérna fyrir svona tíu dögum síðan,“ segir Sigurjón en þau áttu sér stað á bílaplaninu við Stjörnutorg og Borgarleikhúsið eftir lokun verslana um kvöldmatarleytið.

Þekkja þessi andlit

Hann segir vel fylgst með unglingahópum í Kringlunni. „Ef okkur finnst eitthvað sérstakt í hegðun þeirra eða atferli þá gerum við það. En oft eru þetta stærri hópar af krökkum hérna saman sem eru úr skólunum í nágrenni við Kringluna. Við skynjum þetta og þekkjum þessi andlit dálítið úr sem eiga sér einhverja sögu í húsinu,“ segir Sigurjón en hann segir afskipti öryggisvarða af þeim yfirleitt átakalaus og reynt að ræða við þau í góðri sátt.

Hann segir mikið og virkt eftirlit í Kringlunni og yfirleitt komist fólk ekki upp með neitt, nema í einstaka slysatilvikum.

Í Morgunblaðinu er rætt við Harald Sigurðsson, framkvæmdastjóra frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, sem segir hópamyndanir unglinga í Kringlunni ekki nýjar af nálinni og engin sérstök fjölgun táninga hafi verið síðustu daga.

Slagsmálahópar á Facebook

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í febrúar síðastliðnum að mörg hundruð börn og unglingar á landinu séu í lokuðum hópi á Facebook þar sem myndböndum af unglingum er í dreift.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Stöðvar 2 um málið:

Rætt var við Þórhildi Jónsdóttur, deildarstjóra unglingasvið frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýri, sem sagði þetta ekki eina lokaða hópinn á Facebook þar sem börn hafa aðgang að efni sem foreldrar þeirra eru ekki sáttir við og ef að þessari síðu yrði lokað þá komi aðrar í staðinn.

„Við vitum það alveg þannig að umræðan þarf að eiga sér stað og foreldrar verða að vera meðvitaðir: hvað er barnið að gera á netinu?,“ sagði Þórhildur.

Í febrúar árið 2015 var einnig greint frá slíkum Facebook-hópum í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hægt er að horfa á þá umfjöllun í spilaranum hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×