Innlent

Foreldrar ósáttir við að dekkjakurl verði ekki alfarið fjarlægt í ár

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum vegna dekkjakurlsins.
Foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum vegna dekkjakurlsins.
Foreldrar í Reykjavík, margir hverjir, eru ósáttir við ákvörðun Reykjavíkurborgar um að skipta dekkjakurli á gervigrasvöllum ekki alfarið út í ár. Vísbendingar eru um að kurlið innihaldi krabbameinsvaldandi efni. Borgin lagði fram áætlun um endurnýjun valla í gær.



Níu keppnis- og æfingavellir með gervigrasi eru í eigu Reykjavíkurborgar. Kynnt hefur verið áætlun í borgarráði um endurnýjun vallanna en samkvæmt henni verður hafist handa við Víkingsvöll á þessu ári en þar verður skipt um gras og gúmmí. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á fimmtíu milljónir króna. Þá verður gervigrasvöllur KR endurnýjaður á næsta ári, Leiknis í Breiðholti í árið 2018 og ÍR í Breiðholti 2019.

 „Það eru ákveðin vonbrigði að það skuli ekki vera farið í að taka á þeim vallarsvæðum þar sem þetta dekkjakurl í notkun. Við að sjálfsögðu fögnum því að það sé komin fram áætlun um endurnýjun gervigrasvalla en þá er ljóst að borgin er ekki að fara í aðgerðir strax á þeim svæðum þar sem þetta svarta kurl er í notkun. Það er ljóst að það er uppi vafi um heilbrigðisáhrif um notkun þessa kurls á svæðum þar sem börn og iðkendur eru,“ segir Kristinn Wiium, sem er á meðal þeirra foreldra sem barist hafa fyrir dekkjakurlslausum gervigrasvöllum.

Foreldrar hafa lýst yfir áhyggjum af notkun slíks kurls á íþróttavöllum, og hefur umboðsmaður barna sömuleiðis lýst yfir áhyggjum vegna málsins.

„Það er uppi vafi. Það eru upplýsingar sem eru um að hugsanlega sé þetta kurl heilsuspillandi. Það eru líka upplýsingar um annað. Við foreldrar vitum það ekki en það er akkúrat það, það er uppi efi og vafi og þess vegna hefði maður viljað að það hefði verið farið hraðar í þetta, til að eyða þessum vafa,“ segir Kristinn.

Önnur sveitarfélög hafa þegar brugðist við málinu. Í Kópavogi var lögð fram áætlun í október í fyrra og hafist hefur verið handa við að endurnýja gervigrasvelli í Fífunni og sparkvelli við Lindaskóla með nýju gúmmíi. Þá verður lagt nýtt gervigras í Risanum í Hafnarfirði og sömuleiðis á Seltjarnarnesi en til stendur að hefja framkvæmdir í apríl. Þá hefur jafnframt verið lögð fram áætlun í Grindavík, Bolungarvík, Fjallabyggð (Siglufirði) og Blönduósi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×