Innlent

Foreldrar komi að ráðningu skólastjóranna

fanney birna jónsdóttir skrifar
Kjartan Magnússon vill að foreldrar komi að ráðningu skóla- og leikskólastjóra. Það dragi úr líkum á því að óhæft fólk sé ráðið.
Kjartan Magnússon vill að foreldrar komi að ráðningu skóla- og leikskólastjóra. Það dragi úr líkum á því að óhæft fólk sé ráðið. Fréttablaðið/Vilhelm
„Allir eru sammála um mikilvægi þess að skólastarfi sé vel stjórnað og að vandað sé til verka þegar fólk er ráðið í skólastjórastörf. Í framsæknum skólakerfum erlendis hefur samstarf við foreldra stóraukist á undanförnum árum og eitt af því er samráð við foreldrana við ráðningu skólastjóra,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið.

Sjálfstæðismenn munu leggja fyrir borgarstjórn í dag breytingartillögu á samþykkt um skóla- og frístundaráð sem kveður á um að við ráðningu í stöðu skólastjóra og leikskólastjóra skuli gefa foreldrafélagi og skóla/foreldraráði viðkomandi skóla kost á virku samráði um málið.

Kjartan segir að meirihlutinn hafi nú þegar fellt tillöguna á vettvangi skóla- og frístundaráðs.

„Það er slæmt, því ég er viss um að það yrði til mikilla hagsbóta fyrir skólastarf í Reykjavík að tekið yrði upp samráð með þessum hætti.“

Kjartan spyr hvort ekki sé jákvætt að foreldrar barnanna, skattgreiðendurnir, fái hið minnsta tækifæri til að tjá sig áður en skólastjóri er ráðinn.

„Þetta mun örugglega draga úr líkum á því að óhæft fólk sé ráðið því erlendis tíðkast það til dæmis að foreldrafélög kanna fortíð umsækjenda með því að vera í sambandi við foreldrafélag þess skóla sem hann starfaði áður hjá,“ segir Kjartan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×