Innlent

Foreldrar barna í Austurbæjarskóla sjá brotalamir á viðbrögðum við einelti

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Foreldrar vilja vita hvernig eineltisáætlun skólans virkar.
Foreldrar vilja vita hvernig eineltisáætlun skólans virkar. Mynd/E.Ól.
Stjórn foreldrafélags Austurbæjarskóla boðaði til fundar í gærkvöldi vegna eineltismáls innan veggja skólans sem komst í fréttir vegna líkamsárásar í byrjun mánaðarins á stúlku sem stundar nám í skólanum.

Stjórn foreldrafélagsins segist vera að bregðast við atvikinu og munu foreldrar, skólastjóri og þeir sem koma að eineltismálum innan veggja skólans koma á fundinn auk sérfræðinga úr borgarkerfinu.

„Skólinn starfar eftir Olweus-eineltisáætluninni. Við viljum fá betri upplýsingar um áætlunina og hvernig hún sé að ganga,“ segir Stefán Jónsson sem er í stjórn foreldrafélagsins.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að óánægja ríki með störf skólastjóra síðustu vikurnar og Stefán segist sjálfur hafa heyrt óánægjuraddir.

„Mörgum finnst vera brotalamir í hvernig brugðist hefur verið við þessu máli. En það verður farið nánar yfir málin á fundinum, enda skylda okkar gagnvart börnunum okkar að ræða málið á þessum vettvangi,“ sagði Stefán fyrir fundinn í gærkvöldi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×