Innlent

Fór úr bensínleysi yfir í að vera þrettán milljónum krónum ríkari

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vinningurinn kom á miða sem keyptur var í Borgarnesi.
Vinningurinn kom á miða sem keyptur var í Borgarnesi. Vísir/
Ung íslensk kona varð þrettán milljónum ríkari í Lottó úrdrættinum um síðustu helgi. Konan var á leið norður í land síðastliðinn laugardag og rétt ókomin í Borgarnes þegar hún áttaði sig á því að bíllinn var að verða bensínlaus.

Konan keypti banana fyrir barnið sitt á N1 og einn tíu raða Lottómiða í leiðinni. Í hádeginu daginn eftir heyrði fjölskylda hennar að rúmlega þrettán milljónir hefðu komið á miða sem keyptur var á umræddri bensínstöð í Borgarnesi.

„Það var mikill spenningur sem myndaðist við eldhúsborðið meðan farið var yfir miðann og ennþá meiri gleði sem braust út þegar ljóst hvers kyns var. Því að hversu ljúft er það að vera ekki einu sinni orðinn þrítug og eiga von á lottóvinningi inn á reikninginn sinn upp á þrettán milljónir?“ segir í dramatískri tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Þar er haft eftir konunni að hugur hennar hafi verið á flugi undanfarið en hún sé ákveðin í að stofna varasjóð. Hún ætli samt að leyfa sér eitthvað smávegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×