Erlent

Fór í mál við tólf ára frænda sinn vegna faðmlags

Samúel Karl Ólason skrifar
Connell fór fram á tæpar 16 milljónir króna.
Connell fór fram á tæpar 16 milljónir króna. Vísir/Getty
Jennifer Connell tapaði í dag máli sem hún hafði höfðað gegn tólf ára frænda sínum. Hún fór fram á 127 þúsund dali, tæpar 16 milljónir króna, vegna þess að hún úlnliðsbrotnaði þegar frændi hennar, Sean Tarala, faðmaði hana of fast í átta ára afmælisveislu hans árið 2011. Hún sagði að hún hefði fallið í jörðina þegar hann stökk í fang hennar.

Móðir Tarala lést í fyrra og var hann með föður sínum í dómsal í dag.

„Ég man að hann kallaði: Jen frænka, ég elska þig. Svo flaug hann í áttina að mér,“ sagði Connell fyrir dómi samkvæmt CBS. Hún sagðist elska frænda sinn en taldi að hann ætti að bera ábyrgð á atvikinu.

Þá viðurkenndi Connell fyrir dóminum að hún hefði ekki kvartað vegna brotsins á sínum tíma. Hins vegar hefði líf hennar verið erfitt síðustu árin.

„Ég bý á Manhattan og á þriðju hæð svo það hefur reynst mér erfitt og við vitum öll hvað það búa margir á Manhattan.“ Þá sagði Connell frá því að hún hefði nýverið verið í samkvæmi og hefði átt erfitt með að halda á eftirrétti sínum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×