Innlent

Fór fársjúkur í meðferð til Havaí

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Hildur Erlingsdóttir.
Hildur Erlingsdóttir. vísir/pjetur
Hildur Erlingsdóttir missti föður sinn úr krabbameini árið 2011. Á árinu sem hann lést eyddi hann fúlgum fjár í lyfið Salicinium og meðferð á Havaí þar sem hann fékk lyfið í æð. Efnið og meðferðina keypti hann með milligöngu sama sölumanns og seldi Guðmundi Hallvarðssyni sama efni (Orasal) fyrir svipaða upphæð í veikindum hans.

Guðmundur lést í desember á síðasta ári og sonur hans ræddi opinskátt við Fréttablaðið í gær um að faðir hans hefði verið prettaður. Framganga sölumannsins þótti honum skyggja á síðustu daga föður síns.

Sölumaðurinn seldi föður Hildar ekki eingöngu efnið til lækningar. Fyrir milligöngu hans var hann sendur á læknastofu á Havaí þar sem hann fékk efnið í æð. Þá hafði sölumaðurinn einnig milligöngu um að kaupa golfbíl fyrir hinn deyjandi mann.

Var alltaf í kaffi

„Við fórum yfir reikningsyfirlitið hans og fundum alls konar færslur til þessa manns. Við kynntumst honum í gegnum fjölskylduna. Henni tengist kona sem vildi meina að hún hefði læknast fyrir tilstilli þessa lyfs,“ segir Hildur og segist auðvitað ekki geta dregið frásögn hennar í efa. Sú kona hafi sannarlega greinst með krabbamein sem hún sé heil af í dag. Því þakkar hún þessu lyfi.

„Pabbi vildi fara náttúrulegu leiðina og reyna allt sem hann gat í þeim efnum. Við hugsuðum öll af mikilli bjartsýni að það væri búin að finnast lausn á krabbameini. En þetta var allt rosalegt leynimakk og það mátti ekkert tala um þetta, það fannst mér ótrúlega skrítið. Þessi maður var alltaf í kaffi hjá pabba og konunni hans og virtist koma vel fyrir.“

Hallvarður Guðmundsson
Fékk skammt á hálfa milljón

Hildur segir hann hafa keypt skammt af efninu í duftformi í nokkra mánuði sen hafi kostað um það bil hálfa milljón króna. Þá hafi hann verið orðinn mjög veikur. Krabbameinið var þá búið að dreifa sér, fyrst í eitla og þaðan í bein.

„Svo er hann sendur af þessum sama manni til Havaí í meðferð. Þar átti hann að fá lyfið í æð og við höldum að hann hafi sagt honum að hann ætti eftir að læknast.

Golfbíll og ferð til Havaí

Hann var fárveikur þegar hann fór út til Havaí og í engu standi til ferðalaga. Hann stóð ekki í lappirnar. Þeir ákváðu líka í sameiningu að þessi maður myndi flytja einhvern golfbíl inn fyrir hann og ég held að hann hafi fengið einhverjar prósentur af því, þó ég geti ekki fullyrt það. Mér telst til að meðferðin hafi kostað um milljón krónur.“ Kostnaðurinn varð hins vegar mun meiri því Erlingur lenti á spítala. Í heild kostaði ferðin hann að minnsta kosti tvær milljónir. 

Ríghélt í vonina

Meðferðin tókst ekki. Erlingur lést í desember þetta sama ár. Hildur segir hann hafa viljað reyna öll úrræði. Hann hafi líka keypt tæki af Ólafi Einarssyni sem var til umfjöllunar í Kastljósi fyrir nokkrum dögum. „Hann ríghélt í vonina og reyndi öll ráð,“ segir Hildur og segir það hafa verið erfitt fyrir fjölskylduna eftir að hann lést að uppgötva hvernig farið hafði verið með hann.

Sagt búið eiginleikum lyfs

Fréttablaðið sendi Lyfjastofnun Íslands erindi vegna frásagnar sonar Guðmundar Hallvarðssonar.

Í svari stofnunarinnar kemur fram að engar klínískar rannsóknir tengjast vöruheitunum Orasal og Salicinium. Þá kemur fram að varan er merkt af framleiðenda sem fæðubótarefni en er sögð búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð gegn sjúkdómum. Þá ber að líta svo á að hún sé skilgreind sem lyf og markaðssetning hennar óheimili nema að hún hafi markaðsleyfi. Fyrir liggi að umrædd vara uppfylli ekki skilyrði sem settu eru til að lyf hljóti markaðsleyfi.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir stofnuninni berast margar ábendingar og fyrirspurnir um efni sem eru sögð með eiginleika lyfja og gagnast gegn sjúkdómum.

„Lyfjastofnun mun líklega setja frétt á heimasíðu sína um þetta mál til að upplýsa almenning. Mikilvægt er að fréttamenn, vísindasamfélagið og eftirlitsaðilar vinni saman að því koma réttum upplýsingum á framfæri,“ segir Rúna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×