Lífið

Fólkið á Sónar: Skiptinemi sem býður fram vinnu sína

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Edda afhendir gesti armbandið sitt.
Edda afhendir gesti armbandið sitt. vísir/andri marínó
„Þetta er fyrsta skiptið mitt á Íslandi en ég kom í ágúst,“ segir Edda Luisa Kruse Rosset. Hún kemur frá Berlín en sem stendur er hún skiptinemi við Háskóla Íslands. Aðspurð um hvað hún sé að læra svarar hún á óaðfinnanlegri íslensku menningarfræði og örlitla stjórnmálafræði.

Hin 23 ára Edda er einn fjölmargra sjálfboðaliða á hátíðinni. Á fjögurra daga tímabili vinnur hún þrjár vaktir, tvær fjögurra tíma langar og eina fimm tíma. Í staðinn fær hún armband á hátíðina, þarf ekki að bíða í röð og örlítið snarl á meðan vöktum stendur.

„Sem skiptinemi í öðru landi þá hafði ég ekki efni á að versla mér miða. Reykjavík er mjög dýr borg, sér í lagi ef þú miðar við Berlín. Dýr kebab þar kostar þrjár evrur (andvirði tæpra 500 kr.) en hér færðu ekki kebab nema að borga tvöfalt það verð.“

Edda segir að hún viti ekki alveg hvað hana langi að sjá. Flestar íslensku hljómsveitirnar hafi hún séð á Iceland Airwaves síðasta haust en hún geti vel hugsað sér að sjá einhverjar þeirra aftur. Hún nefnir einnig til sögunnar landa sinn Paul Kalkbrenner og böndin Missy Melody og Balsamic Boys. „Nafnið þeirra vekur hjá mér forvitni.“

„Ég hugsa ég verði á Íslandi fram í júlí og fari þá aftur heim til Berlín,“ segir Edda að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×