Innlent

Fólki ráðlagt að halda sig frá Jökulsá á Sólheimasandi

Randver Kári Randversson skrifar
Veruleg hætta stafar af lofttegundum við sporð Sólheimajökuls.
Veruleg hætta stafar af lofttegundum við sporð Sólheimajökuls. Vísir/Arnar
Ferðafólki og fararstjórum er ráðlagt að halda sig í a.m.k. 100 m fjarlægð frá Jökulsá á Sólheimasandi og eindregið er varað við því að nálgast uppstreymisstaðina því eitraðar lofttegundir gætu valdið fólki heilsutjóni og jafnvel dauða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Síðla dags 9. júlí mældu starfsmenn Veðurstofunnar og Háskólans í Palermó styrk lofttegunda sem nú losna úr hlaupvatni við jaðar Sólheimajökuls. Notast var við síritandi stafrænan mæli auk viðeigandi öryggisbúnaðar.

Við vestanverðan sporð Sólheimajökuls, þar sem hlaupvatnið kemur fram, mældist styrkur brennisteinsvetnis (H2S) 114 ppm og styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) 12 ppm (ppm=milljónustu hlutar). Samfelld skráning aðfaranótt 10. júlí sýndi að styrkur koltvísýrlings (CO2) væri þá 11,000 ppm, styrkur H2S hafði hækkað í 80 ppm en styrkur SO2 var kominn niður í 0.3 ppm. Þess skal getið að styrkur þessara lofttegunda getur mælst mjög breytilegur eftir vindátt og vindstyrk.

Hæstu H2S gildin eru yfir hættumörkum sem skilgreind eru þannig að heilsu fólks er hætta búin ef það andar að sér þessum styrk lofttegundarinnar í 15 mínútur. Ef engar varnir eru notaðar er því veruleg hætta á augnskaða og öndunarerfiðleikum. Hæsta mæligildið á H2S er meir en 11-falt yfir ofangreindum 15 mínútna hættumörkum.

Enn stafar því veruleg hætta af lofttegundum við sporð Sólheimajökuls og há H2S gildi (7 ppm) mældust einnig yfir Jökulsá við brúnna á Sólheimasandi.

Á vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra segir að áfram sé unnið á óvissustigi vegna Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi. Mælingar síðasta sólarhring hafi sýnt að vatnshæð og rafleiðni fara ennþá minnkandi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglan á Hvolsvelli mælast áfram til þess við ferðaþjónustufyrirtæki, fulltrúa annarra atvinnustarfsemi, ferðamenn og almenning á svæðinu að fara eftir ráðleggingum Veðurstofunnar og Vinnueftirlitsins á meðan óvissustig er í gildi vegna flóðahættu og hættu sem getur stafað af eitruðum gastegundum. Ferðaþjónustufyrirtæki eru sérstaklega hvött til þess að upplýsa viðskiptavini sína um ástand mála.

Atvinnurekendum og öðrum sem starfa á svæðinu er bent á að kynna sér tilmæli á heimasíðu Vinnueftirlitsins www.vinnueftirlit.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×