Innlent

Fólki hleypt frítt í Bláfjöll

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þessar stöllur voru mættar á opnunardegi Bláfjalla fyrr í mánuðinum.
Þessar stöllur voru mættar á opnunardegi Bláfjalla fyrr í mánuðinum. vísir/vilhelm
„Þetta er einn af stóru dögunum og það var allt pakkað,“ segir Einar Bjarnason, rekstarstjóri Bláfjalla. „Við eigum eftir að gera daginn upp en það voru fleiri þúsund mætt í brekkurnar. Aðstæður voru eins og best verður á kosið, sjö stiga frost, púðursnjór og vel troðnar brekkur. Það gerist ekki betra.“

Ekki voru þó allir jafn ánægðir með daginn. Einhver bilun varð í kortabúnaði svæðisins og var því brugðið á það ráð að hleypa fólki frítt í fjallið.

„Ég mætti skömmu eftir opnun og hafði verið svo forsjáll að kaupa mér kort á N1 áður en ég mætti,“ segir Kristinn Björgúlfsson. „Það var allt stappað og færið geggajð. Félagar mínir mættu á eftir mér án þess að vera með kort og biðu hátt í klukkustund í röð til að kaupa sér aðgang.“

Korteri síðar virðist eitthvað hafa klikkað og þeim sem á eftir þeim komu var hleypt frítt inn.

„Það má ekki skilja það svo að mér sé svo annt um peninginn sem fór í aðgangseyrinn. Mér þykir hins vegar skjóta skökku við að þegar við athuguðum hvort hægt væri að bæta við auka degi við kortin okkar þá hafi það ekki verið hægt og ekki stóð til boða að fá endurgreiðslu. Allt á meðan fólki var hleypt inn í halarófum án þess að greiða.“

Einar rekstarstjóri segir að eitthvað smávægilegt vesen hafi komið upp. Þeir ráði ekki yfir veðri, vindum og tæknimálum. Sé veðrið óhagstætt endurgreiði Bláfjöll ekki keypt kort og það sama hafi gilt í þessu tilfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×