Skoðun

Fólk og forgangsröðun

Páll Valur Björnsson skrifar
Í vetur greindu fjölmiðlar frá því að nokkrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar væru að fá nýja bíla. Það er gott til þess að vita að við skulum vera nægilega rík í þessu landi til að í ríkissjóði finnist peningar sem duga fyrir góðum bílum fyrir ráðherrana okkar en samkvæmt fjölmiðlum kosta bílarnir á bilinu tíu til tuttugu milljónir kr. hver.

Enginn heilvita maður efast um mikilvægi þess að ráðherrarnir séu vel akandi til að þeir geti sinnt sínum krefjandi störfum fyrir hönd og í þágu þjóðarinnar og geti tekið virkan þátt í samfélaginu.

Og ekki viljum við hafa þá á einhverjum skrjóðum því að þá gæti þeirra dýrmæti tími farið allt of mikið í að ýta í gang, skipta um dekk og bæta á leka vatnskassa.

Það er hins vegar mjög leitt til þess að vita að við skulum samt vera svo fátæk í þessu landi að það skuli ekki vera til peningar í ríkissjóðnum okkar til að reka félagslega túlkasjóðinn allt árið. Það þýðir aðeins eitt. Heyrnarskert fólk sem er háð þjónustu sjóðsins fer á mis við tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu og vera með okkur í leik og starfi.

Þetta gengur fullkomlega gegn þeim grundvallarsjónamiðum sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks byggjast á og samningurinn hefur að meginmarkmiði, þ.e.a.s. „að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar“, eins og þar segir.

Hér er því alls ekki um ölmusu eða góðverk eða lúxus ræða. Þetta snýst um grundvallarmannréttindi fólks til að vera ekki útilokað frá þátttöku í samfélaginu.

Og þó að ég telji æskilegt að ráðherrar okkar séu á vel gangfærum bílum en ekki á einhverjum bilanagjörnum skrjóðum ætla ég þó að gerast svo djarfur að fullyrða það hér að réttur þeirra til þess sé ekki tryggður í alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Ég vil því hvetja hæstvirtan mennta- og menningarmálaráðherra til að lesa nú samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vel yfir og taka þær skyldur sem þar eru á hann lagðar alvarlega. Ég hvet hann einnig til að kíkja svo í ríkiskassann okkar og sjá hvort hann getur ekki fundið þar svolitla peninga til að reka megi félagslega túlkasjóðinn þannig að sómi sé að og þannig að ekki verði brotin mannréttindi á fólki í okkar nafni.

Ef hæstvirtum ráðherra tækist þetta er ég viss um að hann myndi gleðja mikið allan almenning í þessu landi sem hann vinnur fyrir og sem á peningana sem geymdir eru í ríkiskassanum.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×