Innlent

Fólk í hjólastól kemst ekki til sýslumannsins

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
rÞess er krafist að farið verði í framkvæmdir við húsnæði útibús sýslumannsins í Vík í Mýrdal.
rÞess er krafist að farið verði í framkvæmdir við húsnæði útibús sýslumannsins í Vík í Mýrdal. mynd/sigurður
„Þetta er opinber stofnun sem sinnir málefnum hreyfihamlaðra en hún getur ekki tekið á móti þeim,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, Landssambands fatlaðra, um það að útibú Sýslumannsins á Suðurlandi í Vík í Mýrdal sé ekki aðgengilegt hreyfihömluðum. Útibúið er á annarri hæð í lyftulausu húsi.

Bergur Þorri Benjamínsson
Bergur hefur sett sig í samband við sýslumanninn og Arion banka hf. sem er eigandi hússins, og krafist þess að farið verði í framkvæmdir til þess að tryggja aðgengi fyrir hreyfihamlaða. 

„Þetta gengur ekki svona og ég bíð bara eftir að þingið komi saman í haust og hefst þá handa við að gera eitthvað í málinu,“ segir Bergur. Hann segir einn einstakling í hjólastól búa í Vík í Mýrdal og það séu fleiri sem eigi erfitt með gang.

„Það er bara ekki til fjármagn til að bæta úr því,“ segir Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaðurinn á Suðurlandi, og bætir við að embættið hafi ekki fjármagn til framkvæmda, hvorki í formi hækkaðrar húsaleigu eða beinnar greiðsluþátttöku í framkvæmdunum.

„Okkur þykir þetta afskaplega leitt. Við þjónustum þó einstaklinga sem ekki komast til okkar á annan hátt, til dæmis fara starfsmenn á heimili viðkomandi,“ segir Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×