Innlent

Fólk hugi að gildistíma vegabréfa: „Getur kostað það að fólki missi af flugi sínu“

Atli Ísleifsson skrifar
Í síðustu viku voru þrír einstaklingar stöðvaðir á leið sinni til Tyrklands vegna þessara reglna.
Í síðustu viku voru þrír einstaklingar stöðvaðir á leið sinni til Tyrklands vegna þessara reglna. Vísir/Getty
„Það er orðið algengara og algengara að verið sé að stöðva fólk á flugvöllum, til dæmis í millilendingum, þar sem það eru minni en sex mánuðir eftir af gildistíma vegabréfa þeirra,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Urður segir að bara í síðustu viku hafi til dæmis þrír Íslendingar verið stöðvaðir á leið sinni til Tyrklands vegna þessa. „Þetta hefur breyst og er orðið þannig að flest ríki utan evrópska efnahagssvæðisins eru með þessa reglu að gildistími vegabréfa verður að vera meira en sex mánuðir frá því að fólk ætlar sér að fara frá landinu.“

Hún segir fjölmargir hafi lent í miklum vandræðum vegna þessara reglna. „Auðvitað er hægt að hjálpa fólki að framlengja vegabréf, en það er vesen og það getur kostað fólki það að það missir af fluginu sínu. Það er ekkert skemmtilegt og erfitt og það er alveg undir hælinn lagt hver ber kostnaðinn af því.“

Ekki nóg að vera með gilt vegabréf

Urður segir að nú til dags bóki fólk flugmiðann sinn heima og ræðir kannski ekki við einhvern sölumann sem minnir það á passa upp á þessa hluti. „Það er ekki nóg að vera með gilt vegabréf, heldur verður það að gilda í sex mánuði eftir að ferðinni á að ljúka og þú yfirgefur umrætt land.“

Líkt og Urður bendir á þá eiga þessar reglur við flest lönd utan EES. „Tyrkland er gott dæmi sem sífellt fleiri leggja leið sína þangað í frí og bara í síðustu viku voru þrír Íslendingar stöðvaðir á leiðinni þangað. Þetta er orðið alltof algengt. Við hvetjum því alla til að passa upp á gildistíma vegabréfanna og huga að þessum málum áður en haldið er í frí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×