Innlent

Fólk grét á göngunum þegar það fékk fréttirnar

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Fanney Björk Ásgeirsdóttir segist enn vera í geðshræringu eftir að hafa fengið þær fréttir í dag að allir einstaklingar sem smitaðir eru af lifrabólgu C fái lyfið Harvoni eftir að gengið var frá samkomulagi heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um átak til að útrýma sjúkdómnum á Íslandi.

Verkefnið er bylting í meðferð lifrabólgu C hér á landi en 1200 sjúklingum stendur nú til boða að fá lyfið Harvoni sem læknar sjúkdóminn í nær öllum tilfellum. Vonir standa til þess að nánast verði hægt að útrýma lifrabólgu C á Íslandi í átakinu.

Sjá einnig: Sjúklingar með lyfrabólgu C fá lyfjameðferð sem læknað getur sjúkdóminn

Sigurður Ólafsson, sérfræðingur í lifrasjúkdómum, segir að um mikil tímamót sé að ræða. „Þetta er einstakt raunverulega í veröldinni að það sé hægt að ráðast í svona verkefni og ég hlakka til að geta að byrja að meðhöndla og bjóða öllum mínum sjúklingum meðferð,“ sagði hann í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kvöld.

Þar var einnig rætt við Fanneyju Björk sem hefur barist við lifrabólgu C í þrjá áratugi.  „Þegar ég vaknaði í morgun óraði mig ekki fyrir að fá svona góðar fréttir. Ég var hjá sjúkraþjálfara í morgun þegar síminn hringdi og ég skildi ekkert í því af hverju fólk var að gráta frammi á göngunum,“ sagði hún þar meðal annars en viðtalið við hana í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×