Fótbolti

Földu fánana og spiluðu ekki þjóðsöngvana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Norður Íra á EM 2016 í Frakklandi.
Stuðningsmenn Norður Íra á EM 2016 í Frakklandi. Vísir/Getty
Hann var sérstakur leikur Írlands og Norður-Írlands í undankeppni HM kvenna í fótbolta í gær en UEFA ákvað að sleppa því að spila þjóðsöngvana fyrir leikinn sem er undankeppni HM 2019.

Það er ein elsta hefð fyrir landsleiki í íþróttum að spila þjóðsöngva þjóðanna sem eru að fara að keppa en UEFA tók þá ákvörðun að þeir yrði ekki spilaðir í hátalarakerfinu fyrir leikinn í gær.

Írland vann leikinn síðan 2-0. Fyrra markið var sjálfsmark, fyrrum leikmanns Grindavíkur, en hitt markið skoraði Megan Campbell.

Ástæðan að UEFA skipaði svo fyrir var yfirvofandi hætta sem ekki fékkst svo frekari skýring á. Leikurinn fór fram á Mourneview Park leikvanginum í bænum Lurgan í Norður Írlandi.

Fyrir leik átti að flagga báðum fánum og spila báða þjóðsöngvana.  Lögreglan fékk hinsvegar upplýsingar um þessa yfirvofandi hættu og því var ákveðið að liðin stilltu sér upp en að engir þjóðsöngvar yrði spilaðir. BBC segir frá.

Báðir þjóðsöngvarnir voru spilaðir þegar karlalandslið þjóðanna mættust í Dublin 2011 en snemma á tíunda áratugnum var aðeins þjóðsöngur heimaliðsins spilaður þegar Írland og Norður-Írland mættust á fótboltavellinum.

Margir hafa gagnrýnt þessa ákvörðun enda stór stund fyrir landsliðsmenn og konur að hlusta á þjóðsöngvinn sinn fyrir leik. „Það er ógeðslegt að það hafi þurft að grípa til þessa aðgerða og þetta varpar skugga á alla upplifunina,“ sagði Grace Murray, fyrrum landsliðskona Íra við BBC.

Írska knattspyrnusambandið gerði einnig formlega athugasemd við þessa ákvörðun en leikurinn fór eins og áður sagði fram í Norður-Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×