Menning

Flytur á sögusviðið

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Brynja Sif „Okkur þykir óskaplega vænt um Zürich þannig að þetta er mjög spennandi.“
Brynja Sif „Okkur þykir óskaplega vænt um Zürich þannig að þetta er mjög spennandi.“ Mynd úr einkasafni
Nikký er 12 ára ákveðin stelpa með einstaka hæfileika,“ segir Brynja Sif Skúladóttir höfundur bókarinnar Nikký og baráttan um bergmálstréð sem er framhald sögunnar Nikký og slóð hvítu fjaðranna sem kom út í fyrra. „Hún býr hjá mömmu sinni í Reykjavík þegar sagan hefst en amma hennar Mandana og föðurfjölskylda hennar búa í sirkus við Zürich-vatn og eiga ættir sínar að rekja til Rúmeníu. Hún fær að eyða sumrinu hjá ömmu sinni í Zürich þar sem hún ætlar að læra betur að beita óvenjulegum hæfileikum sem hún er gædd en hún getur náð sambandi við trén og skilur tungumál þeirra. Nikký hefur haldið þessum hæfileika leyndum á Íslandi en í föðurætt hennar hefur þessi hæfileiki erfst mann fram af manni og þykir fullkomlega eðlilegur þar.“



Nikký og baráttan um bergmálstréð hefst þegar Nikký er á leiðinni ein til Zürich til þess að kynnast fjölskyldunni betur og eyða sumrinu i sirkusnum. Hún er auðvitað rétt lögð af stað þegar dularfullir atburðir fara að gerast. Við sögu koma galdrar og álög sem ógna sirkusnum og margt spennandi gerist, sem ekki er ástæða til að fara nánar út í hér til að spilla ekki fyrir lesendum.



Býrð þú í Sviss, eða hvers vegna ákvaðstu að hafa sögusviðið þar? „Fyrir tíu árum bjuggum við í Þýskalandi, rétt við landamæri Sviss, og næsta stóra borg var Zürich sem bara heillaði mig algjörlega,“ segir Brynja Sif. „Hins vegar er það skemmtileg tilviljun að núna í febrúar erum við að flytja til Zürich á nýjan leik þar sem maðurinn minn er að taka við yfirlæknisstöðu á borgarspítalanum. Hann segir reyndar að þetta hljóti að hafa verið skrifað í stjörnurnar fyrst ég var búin að skrifa tvær bækur sem gerast þar í borginni,“ segir Brynja Sif og hlær. „Okkur þykir óskaplega vænt um Zürich þannig að þetta er mjög spennandi og gaman að fara inn á sögusvið Nikkýjar og sjá landið og borgina með hennar augum.“

Þannig að það er nokkuð ljóst að hún mun halda áfram að vera í Sviss í næstu bók? „Það kemur í ljós,“ segir Brynja Sif dularfull. „Ég er aðeins byrjuð á þriðju bókinni og í henni ferðast sirkusinn reyndar til Íslands, en aðaleinkenni Nikkýjar eru hennar einstöku hæfileikar og auðvitað að hún er frá tveimur löndum og hefur þá sýn sem fólk hefur þegar það hefur kynnst einhverju öðru en heimahögunum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×