Innlent

Flýta þurfi gerð aðgerðaráætlunar gegn mansali

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir það grafalvarlegt að Ísland falli niður um flokk í aðgerðum gegn mansali.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir það grafalvarlegt að Ísland falli niður um flokk í aðgerðum gegn mansali. Mynd/Stefán
„Það er grafalvarlegt að Ísland hafi færst niður um flokk eitt vestur-Evrópuríkja í aðgerðum gegn mansali,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna. „Við vitum að mansal og nútímaþrælahald er eitt alvarlegasta vandamál samtímans og íslensk stjórnvöld þurfa heldur betur að taka sig á ef þau vilja raunverulega sporna við kynlífsþrælkun og að fólk hér á landi sé í vinnuánauð.“

Í gær kom úr skýrsla Bandaríska utanríkisráðuneytisins um aðgerðir ríkja gegn mansali. Þar kemur fram að Ísland er orðið annars flokks í aðgerðum gegn mansali.

Tekið er fram í skýrslunni að lögreglan hafi rannsakað 16 mál sem sneru að mansali í fyrra og þau hafi verið 23 árið 2015. Hins vegar hafi enginn verið ákærður né dæmdur frá árinu 2010.

Rósa Björk segir lögregluna vinna vel með það sem þeim er úthlutað. Ábyrgðin sé stjórnvalda sem svelti málaflokkinn.

„Ég myndi telja að ríkisstjórnin þyrfti að leggja miklu meiri þunga við að flýta gerð aðgerðaráætlunar gegn mansali sem rann út síðastliðin áramót,“ segir Rósa. „Og það þarf að búa til sérstaka verkferla vegna mansalsmála innan dómskerfisins. Við þurfum líka aukna fjármuni til að uppfræða og sporna við þessu alvarlega vandamáli.“


Tengdar fréttir

Hvorki saksótt né dæmt í mansalsmálum

Sprenging hefur orðið í vændi hér á landi á síðustu mánuðum að sögn lögreglu og Ísland er annars flokks þegar kemur að baráttunni gegn mansali í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu. Sextán mansalsmál voru rannsökuð hér á landi í fyrra en ekki hefur verið saksótt eða dæmt í slíkum málum síðastliðin sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×