Erlent

Flynn hættir sem ráðgjafi Trump í þjóðaröryggismálum

atli ísleifsson skrifar
Michael Flynn.
Michael Flynn. Vísir/AFP
Michael Flynn, ráðgjafi Donalds Trump í þjóðaröryggismálum, hefur sagt af sér embætti. BBC greinir frá þessu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu en Flynn hrökklast úr embætti eftir að upp komst að hann hafði átt í talsverðum samskiptum við Rússa áður en Trump tók við embætti. Talið var að sökum þessa væri hætta talin á að Flynn væri orðinn viðkvæður fyrir að verða kúgaður til ákveðinna verka.

Málið hefur vakið nokkra athygli vestra og ekki síst fyrir þá sök að Trump forseti var lengi að gefa út sína afstöðu í málinu.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hafði strax í síðasta mánuði bent forsetanum á að Flynn hafði verið í sambandi við rússneska sendiherrann í Washington, þar sem viðskiptabannið sem Barack Obama forseti setti á Rússa var til umræðu.

Flynn hafði síðar sagt ósatt um þessi samskipti sín við Rússana og það leiddi til afsagnar hans.

Fyrrverandi undirhershöfðinginn Keith Kellogg hefur verið skipaður þjóðaröryggisráðgjafi til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×