Innlent

Flutningur Fiskistofu: Sigurður Ingi „undrandi“ á orðum Vigdísar

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra er undrandi á orðum Vigdísar Hauksdóttur um boð hans um að greiða starfsmönnum Fiskistofu þrjár milljónir króna í styrk fyrir að flytja með stofnuninni til Akureyrar.  Vigdís sagði í Vikulokunum á Rás eitt um helgina að það sé brot á jafnréttisreglum og skapi slæmt fordæmi að bjóða ríkisstarfsmönnum fyrir að flytja á milli landshluta.

„Ég var nokkuð undrandi á yfirlýsingum formanns fjárlaganefndar,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist hafa farið yfir þessi mál með Vigdísi á fundi til að ræða fjárlög þann 13. ágúst síðastliðinn.

„Við erum auðvitað með þessu að koma til móts við starfsmennina og búa til sveigjanleika í því hvernig menn geta tekið ákvarðanir til þess að viðhalda þekkingu og mannauði hjá stofnuninni. Ég hefði talið þetta mjög skynsamlega leið og þetta er sú tillaga sem kom út úr verkefnisstjórninni eftir að við fengum starfsmennina og ráðuneytið til að starfa saman.“

Sleggjudómar í nafni faglegheita

Sigurjón Ingvason, talsmaður starfsmanna Fiskistofu, gerir fastlega ráð fyrir því að starfsmenn muni senda formlega kvörtun á borð Umboðsmanns Alþingis á næstu dögum vegna ákvörðun ráðherrans. Sigurður Ingi segir flutning Fiskistofu hafa fengið ósanngjarna gagnrýni.

„Meðal annars hafa brotist fram í fjölmiðlum aðilar sem í nafni faglegheita, án þess að ég viti til þess að þeir hafi kynnt sér málið til hlítar, virðast vera með sleggjudóma.“

Hann segist ekki ætla að draga áform sín til baka þó svo fari að enginn starfsmaður flytjist norður með stofnuninni.


Tengdar fréttir

Býður starfsfólki Fiskistofu þrjár milljónir

Starfsmenn Fiskistofu geta fengið styrk ef þeir flytjast með stofunni norður til Akureyrar. Ráðuneytið mun ekki segja upp því starfsfólki sem flytur ekki norður né leggja niður störf þess. Starfsmenn þurfa sjálfir að segja upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×