Fótbolti

Flugvél Fenerbache flaug á fugl á leið til Manchester

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúðan á flugvélinni var í slæmu ástandi eftir fuglinn.
Rúðan á flugvélinni var í slæmu ástandi eftir fuglinn. mynd/fenerbache
Leikmenn tyrkneska fótboltaliðsins Fenerbache lentu í því að einkaflugvélin sem var að fljúga með þá til Manchester frá Istanbúl flaug á fugl og þurfti neyðarlendingu.

Fenerbache mætir Manchester United í þriðju umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld klukkan 19.00 en leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Allir sluppu ómeiddir en flugvélin beygði af leið og lenti í Búdapest í Ungverjalandi. Önnur flugvél var send frá Istabúl sem sótti Fenerbache-liðið og flutti það til Manchester.

Á Twitter-síðu sinni sagði tyrkneska félagið frá því að engin hætta hefði staðið yfir en Manchester United svaraði tísti Tyrkjanna og óskaði þeim góðrar ferðar í seinni tilrauninni.

Roman Neustäder, þýsk-rússneski miðjumaðurinn í liði Fenerbache, sá spaugilegu hliðina á þessu öllu saman og skrifaði á Twitter-síðu sína: „Það er enginn fugl að fara að stöðva okkur.“

Fenerbache, sem er í níunda sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar, er í efsta sæti riðilsins í Evrópudeildinni, stigi á undan Manchester United.

Robin van Persie, fyrrverandi framherji Manchester United, mætir á sinni gamla heimavöll á morgun og í vörn tyrkneska liðsins er slóvakíski miðvörðurinn Martin Skrtel sem spilaði lengi með Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×