Erlent

Flugvél Chapecoense líklega eldsneytislaus

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stuðningsmenn Chapecoense söfnuðust saman á heimavelli félagsins í gær og syrgðu.
Stuðningsmenn Chapecoense söfnuðust saman á heimavelli félagsins í gær og syrgðu. Nordicphotos/AFP
Flugvélin sem hrapaði í Kólumbíu nærri borginni Medellín í vikunni með leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense innanborðs varð að öllum líkindum eldsneytislaus. Frá þessu greinir BBC og vísar í hljóðupptökur frá flugturninum í Medellín.

Stuttu áður en upptökunni lýkur heyrist flugmaðurinn biðja um leyfi til þess að lenda vegna algerrar rafmagnsbilunar og eldsneytisleysis. Þá heyrist hann segja að flugvélin sé í 2.743 metra hæð.

Einungis sex af þeim 77 sem voru um borð lifðu flugslysið af en auk fótboltamannanna voru tuttugu blaðamenn í vélinni.

Chapecoense var á leiðinni til Medellín til þess að leika einn stærsta leikinn í sögu félagsins, úrslitaleik Copa Sudamericana gegn Atletico Nacional. Nú hefur Atletico Nacional óskað eftir því að lið Chap­ecoense verði krýnt meistari.

AFP greinir frá því að heimildarmönnum fréttastofunnar innan kólumbíska hersins þyki flugslysið afar grunsamlegt. „Það er mjög grunsamlegt að þrátt fyrir höggið hafi engin sprenging orðið. Það styrkir kenninguna um að eldsneytisleysi hafi orðið til þess að flugvélin hrapaði,“ er vitnað í einn heimildarmannanna.

Orsök slyssins hefur þó ekki verið staðfest og er búist við því að full rannsókn málsins taki nokkra mánuði. Náð hefur verið í flugrita vélarinnar og eru þeir nú til rannsóknar. Breskir rannsakendur munu aðstoða við rannsóknina þar sem flugvélin, British Aerospace 146, var framleidd þar í landi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×