Erlent

Flugslysið það versta í áraraðir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá Jämijärvi í dag.
Frá Jämijärvi í dag. vísir/afp
Finnska lögreglan staðfesti á blaðamannafundi í kvöld að átta lík hefðu fundist í flaki finnsku flugvélarinnar sem fórst í dag.

Tíu manna hópur stökkvara, auk flugmanns, voru um borð í vélinni. Þremur tókst að stökkva úr vélinni með fallhlífar, en ekki er vitað hvers vegna hinum um borð tókst ekki að gera það sama. Stökkvararnir þrír voru fluttir  á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Flugmaðurinn er á meðal þeirra.

Orsök slyssins er enn óljós, en sjónarvottar hafa greint frá því að undarleg hljóð hafi komið frá vélinni skömmu áður en hún hrapaði. Vitnin segja að vélin hafi snúist um sjálfa sig og mikill eldur hafi blossað upp við brotlendingu.  Framburður þeirra sem lifðu slysið af er talinn geta skipt sköpum, en búist er við að rannsókn málsins geti tekið langan tíma.

Flugvélin, sem var af gerðinni Comp air 8 og knúin var af skrúfuhreyflum, brotlenti um klukkan þrjú að staðartíma í dag. Hún brotlenti við Jämijärvi-flugvöll, sem er um tvö hundruð kílómetra norður af Helsinki, og er ein helsta miðstöð fallhlífastökkvara í Finnlandi.

Flugslysið er eitt það alvarlegasta í áraraðir í Finnlandi.




Tengdar fréttir

Þrír stukku úr vélinni sem fórst

Átta manns eru látnir eftir að lítil farþegaflugvél fórst í suðvestanverðu Finnlandi í dag. Óttast er um afdrif fimm til viðbótar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×