Erlent

Flugmóðurskip Kína sigldi að Taívan

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverska flugmóðurskipið Liaoning.
Kínverska flugmóðurskipið Liaoning. Vísir/AFP
Stjórnvöld Taívan sendur herþotur og skip til móts við kínverskan flota sem sigldi í átt að eyjunni og í gegnum Taívan-sund. Í flotanum var Liaoning, eina flugmóðurskip Kínverja. Varnarmálaráðuneyti Taívan segir flotann ekki hafa siglt inn í landhelgi ríkisins en hann hafi farið nærri því.

Þær þotur og skip sem voru send fengu það verkefni að fylgjast með ferð kínverska flotans, sem var á leið frá heræfingum í Suður-Kínahafi.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hafa stjórnvöld Taívan kallað eftir því að Kínverjar myndu endurvekja samskipti ríkjanna eftir að hafa slitið þeim í sumar.

Kínverjar hafa gert tilkall til Taívans allt frá árinu 1949 þegar leiðtogar lýðveldissinna í Kína flúðu þangað undan kommúnistum og stofnuðu þar ríki, sem þeir kölluðu, og kalla raunar enn, Lýðveldið Kína. Afar grunnt hefur verið á því góða á milli ríkjanna allar götur síðan en samskiptin höfðu þó batnað allra síðustu ár.

Kínverjar segja áhöfn flugmóðurskipsins og fylgiskipa þess hafa fylgt alþjóðalögum.

Flugmóðurskipið var á leið frá æfingum í Suður-Kínahafi þar sem Kínverjar hafa gert tilkall til nánast alls hafsins. Tilkallið hefur verið dæmt ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum, en Kínvjerar hafa byggt upp eyjur í hafinu og vígbúið þær með flotastöðvum, herflugvöllum, loftvörnum og langdrægum flugskeytum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×