Innlent

Flugmenn tilbúnir til samninga

Hjörtur Hjartarson skrifar
Hafsteinn segir að Icelandair hafi ekki stigið 0,1 prósentustig í átt til krafna flugmanna.
Hafsteinn segir að Icelandair hafi ekki stigið 0,1 prósentustig í átt til krafna flugmanna. Vísir/Daníel
Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir það ekki rétt að veikindum flugmanna sé um að kenna að flug hafa fallið niður hjá Icelandair í dag. Þá sé ekkert til í ásökunum að flugmenn fyrirtækisins stundi skæruaðgerðir.

„Við höfnum því að sjálfsögðu alfarið,“ segir Hafsteinn. „Við stundum ekki skæruhernað, það væru ólöglegar aðgerðir. Þessi röskun sem hefur orðið á flugum Icelandair stafar eingöngu af því að þeir hafa ekki átt mannskap til að vinna umframvinnu.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu voru óvenju mörg veikindi flugmanna ein ástæðan fyrir því að fella þurfti niður svona mörg flug. Hafsteinn segir ekkert til í þessu.

„Nei. Það eru nánast engin veikindi.“

Í dag falla niður samtals 21 flug hjá Icelandair. Hafsteinn segir að þessi mikli fjöldi ferða sem hætt er við stafi fyrst og fremst af því að áætlun raskast og flugmenn fara út af vaktaplönum sínum.

„Þá hliðrast allt til og þau hafa bara ekki mannskap til að setja menn á þau flug.“

Hann telur ekki að deilan sé kominn í hnút sem erfitt er að leysa.

„Við erum tilbúnir til viðræðna og samninga,“ segir Hafsteinn. „Það er hægt að leysa þetta eins og aðrar deilur. Það getur vel verið að Icelandair finnist okkar kröfur ósanngjarnar en það má þá koma fram að þeir hafa ekki stigið 0,1 prósentustig til móts við okkur í neinum kröfum. En halda í einhverja vegferð sem er löngu fallin um sjálfa sig. Við erum alveg tilbúnir að setjast að samningum.“


Tengdar fréttir

Flugmenn hjá Icelandair á leið í aðgerðir

Formaður samninganefndar flugmanna hjá Icelandair segir félagið vel hafa efni á að greiða hærri laun. Yfirstjórn félagsins hafi fengið ríflegar hækkanir og hluthafar greiddan út góðan arð.

„Allir vita að flugmenn eru vel launaðir“

Upplýsingafulltrúi Icelandair er hóflega bjartsýnn á að samningar takist áður en verkfallsaðgerðir flugmanna skella á eftir viku. Hann segir kröfur flugmanna umtalsverðar.

Verkfall hefur áhrif á 7.000 ferðalanga

Samtök atvinnulífsins segja að flugmenn Icelandair fari fram á 30 prósenta launahækkun. Fyrsta boðaða verkfall flugmanna er 9. maí og setur ferðaplön 7.000 manns, sem ýmist eru að koma eða fara frá landinu, í uppnám þennan eina dag.

Önnur vinnustöðvun flugvallastarfsmanna hófst í nótt

Boðuð fimm klukkustunda vinnnustöðvun flugvallastarfsmanna hófst klukkan fjögur í nótt og er búist við mikilli örtröð í Leifsstöð um og upp úr klukkan níu, þegar innritun farþega getur loks hafist, ásamt innvigtun farangurs og vopnaleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×