Erlent

Flugmaður Chapecoense hafði verið varaður við bensínleysi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
71 dó í slysinu, þar á meðal liðsmenn brasilíska fótboltaliðsins Chapecoense Real.
71 dó í slysinu, þar á meðal liðsmenn brasilíska fótboltaliðsins Chapecoense Real. Vísir/Getty
Flugmaður leiguflugvélarinnar sem fórst í Kólumbíu á mánudag hafði verið varaður við því að vélin gæti orðið eldsneytislaus áður en vélin tók á loft. Talið er að orsök slyssins megi rekja til eldsneytisleysis.

71 dó í slysinu, þar á meðal liðsmenn brasilíska fótboltaliðsins Chapecoense Real. Sex farþegar lifðu slysið af.

Chapecoense var á leiðinni til Medellín til þess að leika einn stærsta leikinn í sögu félagsins, úrslitaleik Copa Sudamericana gegn Atletico Nacional. Nú hefur Atletico Nacional óskað eftir því að lið Chap­ecoense verði krýnt meistari.

Hljóðupptöku úr flugturninum í Medellín hefur verið lekið. Stuttu áður en upptökunni lýkur heyrist flugmaðurinn Miguel Quiroga biðja um leyfi til þess að lenda vegna algerrar rafmagnsbilunar og eldsneytisleysis. Þá heyrist hann segja að flugvélin sé í 2.743 metra hæð. Önnur flugvél fékk forgang sökum þess að úr henni lak eldsneyti. Quiroga var sagt að bíða í sjö mínútur.

Flugumferðaryfirvöld í Bólivíu hafa nú tímabundið svipt flugfélaginu LaMia starfsleyfi. Quiroga átti hluta í flugfélaginu.

Flugvélin hafði aðeins nægt eldsneyti fyrir áætlaðan flugtíma en ekki umfram það og vakti það athygli flugumferðaryfirvalda í Bólivíu. Vélin fékk engu að síður að fara í loftið. Þá hefði flugmaðurinn getað stöðvað í Bogotá til að fylla á eldsneyti en ákvað þess í stað að fljúga beint til Medellín.

Talið er að heildarrannsókn á tildrögum slyssins muni taka nokkra mánuði.


Tengdar fréttir

Flugvél Chapecoense líklega eldsneytislaus

Flugvélin sem hrapaði í Kólumbíu nærri borginni Medellín í vikunni með leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense innanborðs varð að öllum líkindum eldsneytislaus. Frá þessu greinir BBC og vísar í hljóðupptökur frá flugturninum í Medellín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×