Innlent

Fluginu aflýst vegna þess að viðgerð dróst

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Farþegaþota frá Icelandair.
Farþegaþota frá Icelandair. Vísir/Vilhelm.
Farþegar Icelandair sem fastir eru í Amsterdam eftir að fresta þurfti flugi þaðan í gær vegna bilunar í rafkerfi þotu flugfélagsins komast heim í dag. Viðgerð dróst af ófyrirséðum ástæðum og því var fluginu aflýst í gær.

Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en hann segir að áætluð brottför frá Schipol-flugvelli í Amsterdam sé klukkan 14.00 í dag að staðartíma.

Bilun varð í rafkerfi vélarinnar og tók viðgerð lengri tíma en áætlað var að sögn Guðjóns sem varð til þess að fluginu var aflýst í gær.

Farþegar Icelandair á Schiphol-flugvelli í Amsterdam.Vísir/Aðsend
„Í svona aðstæðum er reynt að gera eins vel og hægt er,“ segir Guðjón. „Viðgerðin dróst af ófyrirséðum ástæðum og það var óheppilegt.“

Um er að ræða sömu vél og var snúið við skömmu eftir flugtak á leið frá Boston til Íslands á mánudag í síðustu viku og aftur skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli á laugardag. Vélin bættist við flugflota Icelandair í maí.

Bilunin sem átti sér stað í síðustu viku var vegna mælitækis í stjórnklefanum sem sýndi að hjólabúnaður vinstra megin hefði ekki fest sem skyldi.

Guðjón segir að ekki hafi komið til skoðunar að taka vélina úr umferð þrátt fyrir þessar þrjár bilanir á skömmum tíma. Viðgerð á henni stendur nú yfir í Amsterdam en önnur vél var send eftir farþegunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×