Lífið

Flugfreyjukórinn verður á flugi í flutningi sínum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Flugfreyjurnar verða íklæddar hátíðarbúningi Icelandair á aðventutónleikunum.
Flugfreyjurnar verða íklæddar hátíðarbúningi Icelandair á aðventutónleikunum. mynd/Gunnlaugur Rögnvaldsson
Flugfreyjukór Icelandair hefur undanfarin ár efnt til aðventutónleika.

Í ár verða tvær einsöngkonur úr hópi flugfreyjanna, þær Jana María Guðmundsdóttir og Heiða Ólafsdóttir. Einnig tekur Lögreglukór Reykjavíkur þátt í flutningnum.

„Á tónleikunum erum við með bland í poka, hátíðlegt, létt og skemmtilegt. Svo kryddar Lögreglukórinn þetta með okkur. Það er rosalega gaman að fá flottar karlaraddir blandaðar saman við,“ segir Jarþrúður Guðnadóttir, formaður kórsins.

Flugfreyjukórinn kemur fram í hátíðarbúningi Icelandair. „Það verða allir uppdubbaðir í búningnum og voða fínir. Flugfreyjukór er ekki flugfreyjukór nema hann syngi í búningi.“

Auk tónleikanna fer kórinn á svokallað jólaflakk þar sem hann syngur fyrir starfsfólk Icelandair á hinum og þessum stöðum. Kórinn endar svo flakkið í Leifsstöð þar sem meðal annars er sungið fyrir farþega sem eru að fara í tengiflug og til Evrópu.

„Við stefnum á það og góða lendingu líka,“ segir Jarþrúður glöð í bragði þegar hún er spurð að því hvort kórinn muni ekki fara á flug í flutningnum.

Kórstjóri Flugfreyjukórs Icelandair er Magnús Kjartansson. Aðventutónleikarnir verða annan desember í Grafarvogskirkju, tónleikarnir eru ókeypis og eru allir boðnir velkomnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×