Innlent

Flugeldarusl allt að 450 tonn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Talið er að allt að fjögur hundruð og fimmtíu tonn af flugeldarusli verði til á hverju ári hér á landi. Sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segir margvíslega mengun fylgja flugeldum. Loftmengun í Reykjavík á miðnætti á gamlárskvöld getur orðið á við þá sem finna má í menguðustu borgum í Kína.

Aðeins lítill hluti af hverjum og einum flugelda sem að landsmenn skjóta upp um hver áramót er púður. Megnið er plast, pappi, tré og leir. „Þetta er í raun og veru alveg hellings rusl. Í fyrra voru flutt inn rúmlega fimm hundruð tonn af flugeldum og það er í raun líklega sko minnihlutinn af því sem brennur,“ segir Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun.

Hann áætlar að allt að fjögur hundruð og fimmtíu tonn af flugeldarusli verði til á hverju ári hér á landi. „Við viljum bara hvetja fólk til að týna þetta rusl á nýársdag og raketturusl má bara fara í almenna sorptunnu. Það fer ekki í endurvinnslutunnuna,“ segir Þorsteinn en fara á með stórar kökur í endurvinnslustöðvarnar í stað þess að setja þær í ruslatunnurnar.

Hávaðamengun fylgir einnig flugeldum svo og loftmengun. Þorteinn segir styrk svifryks á miðnætti á gamlárskvöld í Reykjavík hafa orðið á sambærilegan og styrk svifryks í menguðustu borgum Kína. Hann segir veðurspána fyrir kvöldið gera ráð fyrir nokkrum vindi. „Vindurinn ætti þá að hreinsa mengunina fljótt í burtu þannig að þetta ætti að standa mjög stutt þessi mengunartoppur,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×