Innlent

Flugdólgurinn íslenskur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Maðurinn sem handtekinn var í fyrradag fyrir að sýna ógnandi tilburði í flugi Icelandair frá Halifax til Keflavíkur er Íslendingur á fimmtugsaldri. Að sögn lögreglu var hann afar ölvaður. Maðurinn var handtekinn við lendingu, snemma morguns, og var honum sleppt úr haldi um það bil sjö klukkustundum síðar, eða rétt eftir hádegi. Hann verður í kjölfarið kærður, væntanlega fyrir brot á lögum um loftferðir.

Strax í upphafi ferðar hóf hann að sýna bæði áhöfn og farþegum ógnandi tilburði, var með mikil ólæti og átti áhöfnin í fullu fangi með að róa manninn niður, en ferðin tekur tæpar fimm klukkustundir.

Líkt og frægt er þurfti að binda niður farþega Icelandair á síðasta ári, sem jafnframt sýndi afar ógnandi tilburði í flugi flugfélagsins til New York. Málið vakti heimsathygli og hefur hann síðan þá verið kallaður „íslenski flugdólgurinn“ víðs vegar um heiminn.  Var hann kærður og meinað að fljúga með flugfélaginu í kjölfarið. Orðatiltækið allt er gott sem endar vel á þó vel við í þessu tilfelli því sættir náðust á milli mannsins og Icelandair og fær hann nú að fljúga með félaginu aftur, með þeim skilyrðum að hann sé í fylgd ábyrgðarmanns.

Talsmenn Icelandair vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var óskað og liggur því ekki fyrir hvort flugfélagið muni kæra manninn.


Tengdar fréttir

Flugdólgur handtekinn á Keflavíkurvelli

Óskað var aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni við að fjarlægja drukkinn og ógnandi farþega sem var að koma með flugi frá Halifax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×